Íslenskir fætur á Ólympíuleikana í Tókýó

Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands tók á móti níu af …
Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands tók á móti níu af bestu íþróttamönnum heims sem notast við gervilimi. Ljósmynd/Aðsend

Níu af bestu íþróttamönnum heims, sem notast við gervilimi, hafa dvalið á Íslandi síðustu daga. Tilgangur heimsóknarinnar var að taka þátt í æfingum og prófunum undir handleiðslu sérfræðinga Össurar því á næsta ári hefjast Ólympíuleikarnir og Ólympíuleikar fatlaðra í Tókýó en þangað stefnir hugur þeirra. Hópurinn, sem nefnist Team Össur, sótti forseta Íslands Guðna Th. Jóhannesson heim á Bessastaði.

„Forsetinn ávarpaði hópinn og gerði að umtalsefni hversu skemmtilegt það væri að hugsa til þess að gervifæturnir sem íþróttafólkið mun styðjast við í keppni í Tókýó hafi allir verið handfjatlaðir af íslenskum listasmiðum, verkfræðingum og hönnuðum í höfuðstöðvum Össurar á Grjóthálsi. Sagði forsetinn Íslendinga vera einstaklega stolta af því hugviti sem þarna byggi að baki.“ Þetta kemur fram í tilkynningu. 

Í hópnum eru afreksíþróttamenn frá öllum heimsálfum, heimsmethafar og verðlaunahafar í sínum greinum. Einna þekktastur er líklega Markus Rehm, heimsmethafi í langstökki en met hans er 8,48 metrar. Rehm hefur verið eitt af andlitunum sem skipuleggjendur hafa notað í kynningaskyni fyrir leikana í Tókýó. Annar meðlimur Team Össur, sem stefnir á að ná sínum besta árangri á leikunum hingað til, er íslenski spjótkastarinn Helgi Sveinsson, núverandi heims- og Evrópumethafi í sínum flokki. 

Opnunarhátíð Ólympíuleikana í Tókýó verður 24. júlí en Ólympíuleikar fatlaðra hefjast á sama stað hinn 25. ágúst.

„Þess má geta að á meðal gervifóta sem meðlimir Team Össur hópsins prófuðu í Íslandsheimsókninni eru þrjá nýjar útgáfur af Cheetah-hlaupafætinum. Fæturnir eru enn á þróunarstigi og eru sérstaklega hannaðir fyrir íþróttamenn. Búist er við að þeir komi á almennan markað á næsta ári,“ segir ennfremur í tilkynningu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert