Krafa um að Ísland sé í forystu

„Ég er mjög ánægð með áhugann á þessari ráðstefnu en ég finn líka að það eru gerðar kröfur til okkar sem forysturíkis á þessu sviði,“ segir Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra en hún setti alþjóðlega #metoo-ráðstefnu í Hörpu í dag.

Katrín var einnig áberandi í erlendum fjölmiðlum í dag vegna ráðstefnunnar og greinar birtust á vefútgáfum The Guardian og CNN þar sem jafnrétti og kynbundið ofbeldi var til umfjöllunar og rætt er við Katrínu en hún stingur einnig niður penna á vef CNN. 

mbl.is var í Hörpu í dag og ræddi við Katrínu af þessu tilefni en hún segir eitt af verkefnum næstu tveggja daga, þar sem 800 konur alls staðar að ræða málin, sé að leggja mat á hvort #metoo-byltingin sem hófst fyrir tveimur árum hafi skilað einhverjum raunverulegum breytingum.

Hvað okkar samfélag varðar segist forsætisráðherrann telja svo vera eins og fram kemur í viðtalinu.

Hér má kynna sér dagskrá ráðstefnunnar en hún er liður í formennsku Íslands í Norrænu ráðherranefndinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert