Mikill munur á viðhorfi til kannabiss eftir aldri

AFP

Mikill meirihluti landsmanna, eða 87%, telur kannabis skaðlegt heilsunni og rúmur helmingur, eða 53%, mjög skaðlegt samkvæmt niðurstöðum nýrrar skoðanakönnunar fyrirtækisins Maskína sem unnin var fyrir Foreldrahús.

Fram kemur í fréttatilkynningu frá Foreldrahúsi að mikill munur sé á viðhorfi fólks til kannabiss eftir aldri. „Þannig telja einungis tæplega 39% þeirra sem eru undir þrítugu að kannabis sé mjög skaðlegt. Rösklega 2% telja það alls ekki skaðlegt og meira en fimmtungur þeirra telur að kannabis sé mjög lítið skaðlegt. þannig að 22% ungs fólks, yngra en 30 ára, telja kannabis mjög lítið eða alls ekki skaðlegt. Til samanburðar telja 56-62% þeirra sem eru 30 ára eða eldri að kannabis sé mjög skaðlegt.“

Þá spurði Maskína fólk einnig hvort það hefði prófað eða neytt nokkurra vímugjafa en ekki var spurt um magn í því sambandi. „Langstærsti hluti fólks hefur prófað eða neytt áfengis eða næstum 83%. Þriðjungur hefur prófað eða neytt kannabiss eða grass en einungis rösklega 13% höfðu ekki neytt eða prófað þau efni sem upp voru talin (áfengi meðtalið).“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert