Ráðherra þykir bjórinn dýr

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra.
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra. mbl.is/Árni Sæberg

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra furðar sig á háu verði á bjór á börum bæjarins í færslu á Facebook. Hann keypti sér bjór um helgina á hótelbar og var verðið 270% yfir smásöluverði ÁTVR.

Á Nordica-hótelinu keypti ég hálfslítra Tuborg Classic um helgina. Hann kostar í ÁTVR, með smásöluálagningunni, 379 kr. samkvæmt vefsíðunni. Sami bjór af krana kostaði 1.400 kr. á hótelinu. Það er 270% yfir smásöluverði ÁTVR. Konan sem afgreiddi mig samsinnti um að þetta væri hátt verð, en taldi það þó ekki það hæsta í borginni,“ skrifar Bjarni á Facebook.

Færsla Bjarna kemur í framhaldi af umfjöllun Félags atvinnurekenda, frá því í gær, þar sem fjallað er um skattlagningu á áfengi hér á landi. 

FA mótmælir áætlun ríkisstjórnarinnar um 2,5% hækkun áfengisgjalds, eins og lagt er til í fjárlagafrumvarpi fyrir næsta ár. Í umfjöllun FA segir að eina landið sem kom­ist ná­lægt Íslandi hvað áfeng­is­verð varðar sé Nor­eg­ur. Þar sé verðið 152% hærra en meðal­verðið í ESB.

FA skýrir verðmuninn með „gíf­ur­leg­um skött­um ís­lenska rík­is­ins“ á áfenga drykki.

Bjarni segir að því verði ekki mótmælt að áfengisgjöld séu há hér á landi. Hann spyrji sig samt hvort ekki komi fleira til.

Það er ástæða til að fylgjast vel með verðþróun í landinu, m.a. vegna mikilvægis þess fyrir ferðaþjónustuna að geta boðið samkeppnishæft verð. Allir þættir verða að vera teknir með í þeirri umræðu, ekki eingöngu opinber gjöld, en þau rýrna að raungildi þessi misserin (áfengisgjald fylgir ekki verðlagi),“ skrifar fjármálaráðherra.

 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert