Vettvangsrannsókn lokið á Skálafellsöxl

Tíu manns á vegum rannsóknarnefndar flugslysa sinnti vettvangsrannsókn á flugslysi …
Tíu manns á vegum rannsóknarnefndar flugslysa sinnti vettvangsrannsókn á flugslysi sem varð á Skálafellsöxl síðdegis og voru aðstæður á fjallinu ágætar. mbl.is/Hari

Vettvangsrannsókn á flugslysi við Skálafellsöxl lauk á ellefta tímanum í kvöld. Tíu manns  sinntu rannsókninni og voru aðstæður á fjallinu ágætar að sögn Þorkels Ágústssonar, rannsóknarstjóra flugsviðs og rekstrarstjóra rannsóknarnefndar samgönguslysa. Lögregla lokaði veginum að Skálafelli á meðan vettvangsrannsókn stóð yfir. 

Tilkynning um flugslysið barst stjórnstöð Landhelgisgæslunnar á fjórða tímanum í dag. Flugmaður lítillar eins hreyfils vélar var einn um borð í vélinni sem brotlenti milli Móskarðshnjúka og Skálafells.

Viðbragðsaðilar voru sendir á vettvang og gekk flugmaðurinn í fang björgunarmanna á toppi Skálafells. Var hann fluttur á Landspítalann til aðhlynningar en ekki hafa fengist upplýsingar um líðan hans. 

Lögregla lokaði veginum að Skálafelli á meðan vettvangsrannsókn stóð yfir.
Lögregla lokaði veginum að Skálafelli á meðan vettvangsrannsókn stóð yfir. mbl.is/Hari

Flak vélarinnar var fjarlægt af Skálafelli og flutt í rannsóknarskýli nefndarinnar þar sem frumrannsókn fer fram. Þorkell getur ekki sagt til um á þessum tímapunkti hvenær von er á bráðabirgðaniðurstöðum. 

Þetta er áttunda flugslysið sem kemur inn á borð nefndarinnar á árinu en alls eru um 30 mál til rann­sókn­ar hjá nefnd­inni.

Nefndin hefur þó ekki þurft að óska eftir liðsauka. „En það er mikið að gera hjá okkur, það má segja það, því miður,“ segir Þorkell.

mbl.is