Vísar kjaradeilu við borgina til ríkissáttasemjara

Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar.
Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar. mbl.is/Eggert

Kjaradeilu stéttarfélagsins Eflingar við Reykjavíkurborg hefur verið vísað til ríkissáttasemjara af félaginu. Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, sendi skriflega tilkynningu um þetta síðdegis í gær. Fram kemur í fréttatilkynningu frá félaginu að það líti svo á að viðræður við Reykjavíkurborg, sem staðið hafa yfir frá í febrúar á þessu ári, hafi reynst árangurslausar en umræddur kjarasamningur rann út 31. mars.

Enn fremur segir að eitt helsta ágreiningsmálið í viðræðunum feli í sér kröfu um styttingu vinnuvikunnar. Reykjavíkurborg hafi lýst því yfir að tilraunaverkefni á þessu sviði hafi skilað jákvæðum árangri. Engu að síður hafi ekki náðst viðunandi árangur í samtali í þeim efnum á milli deiluaðila. Þá hafi Eflingu ekki tekist að koma að ýmsum öðrum þáttum í kröfugerð sinni.

„Við erum með öfluga, fjölmenna og samhenta samninganefnd skipaða fólki með mikla starfsreynslu hjá borginni. Hún var einróma sammála því að vísa viðræðum, af þeirri einföldu ástæðu að kröfugerðin okkar sem skrifuð var með almennum félagsmönnum fæst í raun ekki rædd,“ er haft eftir Sólveigu Önnu. „Okkur þykir miður að hafa ekki skynjað raunverulegan samningsvilja frá borginni í þessum viðræðum. Með því að vísa vonumst við til að breyta því.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert