Bindur miklar vonir við hlutdeildarlán

Kevin Stuart, húsnæðismálaráðherra Skotlands og Ásmundur Einar Daðason, félags- og …
Kevin Stuart, húsnæðismálaráðherra Skotlands og Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra. Ljósmynd/Aðsend

Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, segist binda miklar vonir við að svokölluð hlutdeildarlán ryðji sér til rúms á íslenskum húsnæðismarkaði og að þau muni hjálpa ungu fólki og tekjulágu, sem og fólki sem hefur misst húsnæði, til að eignast þak yfir höfuðið. Ásmundur Einar átti í gær fund með Kevin Stuart, húsnæðismálaráðherra Skotlands, og ræddu þeir meðal annars um leið Skota, en stjórnvöld þar hafa innleitt og unnið með hlutdeildarlán.

Bæði Englendingar og Skotar hafa valið þann kost að veita hlutdeildarlán (Equity Loans) til þess að styðja við tekjulægri íbúðakaupendur og stuðla að hagkvæmum nýbyggingum. Markmið fundarins með Stuart er að sögn Ásmundar að dýpka skilning hér á landi á úrræðinu og helstu áhrifum þess. Voru meðal annars fulltrúar frá Alþýðusambandi Íslands, Sambandi íslenskra sveitarfélaga og Íbúðalánasjóði á fundinum með ráðherrunum.

Í tilkynningu frá félagsmálaráðuneytinu kemur fram að í yfirlýsingu um stuðning stjórnvalda við lífskjarasamninga hafi komið fram að unnið verði með aðilum vinnumarkaðarins að því að finna skynsamlegar leiðir og útfærslur til að auðvelda ungu fólki fasteignakaup. Sérstaklega að horft væri til þess að nýta 3,5% af lífeyrissparnaði til innborgunar við fasteignakaup. Sú leið hefur verið köllum svissneska leiðin. Samhliða þessu var lagt til að boðið yrði upp á svokölluð hlutdeildarlán. Slík lán bera lægri vexti og afborganir fyrstu árin og gera þannig tekjulágum kleift að komast yfir útborgunarþröskuldinn. Lánin verða síðan endurgreidd þegar eigandi selur íbúð eða greiðir lánið upp.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert