Búið að ræða við flugmanninn

Lítil eins hreyfils flugvél brotlenti á Skálafelli um miðjan dag …
Lítil eins hreyfils flugvél brotlenti á Skálafelli um miðjan dag í gær. mbl.is/Hari

Fulltrúar rannsóknarnefndar samgönguslysa hafa rætt við flugmann vélarinnar sem brotlenti á Skálafellsöxl í gær. Flugmaðurinn gekk rúman kílómetra frá flaki vélarinnar að þyrlu Landhelgisgæslunnar. Hann hlaut áverka á andliti og fæti en frekari upplýsingar um líðan hans hafa ekki fengist. 

Þorkell Ágústs­son­, rann­sókn­ar­stjóri flugsviðs og rekstr­ar­stjóri rann­sókn­ar­nefnd­ar sam­göngu­slysa, segir að um bráðabirgðaupplýsingar sé að ræða og rætt verði frekar við flugmanninn síðar. 

Samkvæmt upplýsingum frá Ásgeiri Erlendssyni, upplýsingafulltrúa Landhelgisgæslunnar, barst stjórnstöð boð frá neyðarsendi vélarinnar klukkan 14.55 í gær. Vélin er af gerðinni Piper PA-18 Super Cub og ber einkennisstafina TF-KAJ og er í eigu flugklúbbsins Þyts. 

Flugmaðurinn gekk rúman kílómeter frá flakinu

Upphaflegir útreikningar á staðsetningu neyðarboðsins sýndu að vélin væri í Móskarðshnjúkum. 1,64 kílómetrar eru hins vegar á milli þeirrar staðsetningar og þar sem vélin brotlenti í raun, en útreiknað hnit neyðarboðsins er notað sem viðmið og var ekki í fjarri lagi að þessu sinni samkvæmt upplýsingum frá Landhelgisgæslunni. 

Upphaflegir útreikningar á staðsetningu neyðarboðsins sýndu að vélin væri í …
Upphaflegir útreikningar á staðsetningu neyðarboðsins sýndu að vélin væri í Móskarðshnjúkum. 1,64 kílómetrar eru hins vegar á milli þeirrar staðsetningar og þar sem vélin brotlenti í raun. Flugmaðurinn gekk svo um kílómeter frá flakinu áður en hann fannst. Kort/mbl/map.is

Þegar boð úr neyðarsendi flugvéla berst hefur stjórnstöð gæslunnar samband við flugturn og neyðarlínu. Á sama tíma barst neyðarlínu tilkynning um að reykur sæist á svæðinu og í kjölfarið var útkallinu breytt í Alpha, þ.e. útkall með mestan forgang. 

Klukkan 15.06 var þyrlan kölluð út og var hún komin á svæðið klukkan 15.39. Áhöfn þyrlunnar kom auga á manninn skömmu síðar við möstur á toppi Skálafells. Þyrlan lenti skömmu síðar og var maðurinn tekinn um borð og fluttur á Landspítalann í Fossvogi þar sem þyrlan lenti klukkan 15.51. 

Um tíu manns tóku þátt í vettvangsrannsókninni í gær. Tildrög …
Um tíu manns tóku þátt í vettvangsrannsókninni í gær. Tildrög slyssins eru óljós. mbl.is/Hari

Eldur logaði í flakinu þegar það fannst

Klukkan 16.16 fékk stjórnstöð upplýsingar um að björgunarsveitarmenn hefðu gengið fram á flak vélarinnar á Skálafelli, um kílómetra frá þeim stað þar sem flugmaðurinn fannst á gangi. Eldur logaði í vélinni. Um hálftíma síðar tók þyrla Landhelgisgæslunnar á loft frá Tungubökkum í Mosfellsbæ með einn björgunarsveitarmann, tvo rannsóknarlögreglumenn og einn fulltrúa frá rannsóknarnefnd samgönguslysa. 

Landhelgisgæslan afhenti lögreglu vettvang skömmu eftir að vélin fannst. Vettvangsrannsókn hófst stuttu síðar og lauk á ellefta tímanum í gærkvöldi. Þorkell segir að tildrög slyssins séu enn í rannsókn. Flakið var flutt niður af Skálafelli á sérútbúnum pallbíl með aðstoð björgunarsveita og komið fyrir í flugskýli rannsóknarnefndarinnar. Flak vélarinnar er töluvert brunnið.

Eldur kom upp í vélinni og enn logaði í henni …
Eldur kom upp í vélinni og enn logaði í henni þegar flakið fannst rúmum klukkutíma eftir að boð úr neyðarsendi vélarinnar barst. Vélin er illa brunnin. mbl.is/Hari
mbl.is