Ekki í pallborði með Katrínu vegna deilna heima fyrir

Norski ráðherrann var ekki viðstödd á #MeToo fundinum í gær.
Norski ráðherrann var ekki viðstödd á #MeToo fundinum í gær. mbl.is/Kristinn Magnússon

Trine Skei-Grande, formaður norska stjórnmálaflokksins Venstre og ráðherra menningar- og jafnréttismála, er orðin annar norski ráðherrann til þess að stytta dvöl sína á Íslandi vegna deilna innan norsku ríkisstjórnarinnar. Skei-Grande átti að taka þátt í pallborðsumræðum á #MeToo-ráðstefnunni í Hörpu ásamt Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra en mætti ekki þar sem hún flaug heim síðdegis í gær, að því er segir í umfjöllun NRK.

Hinn 20. ágúst var Erna Solberg, forsætisráðherra Noregs, ekki viðstödd kvöldverð leiðtoga Norðurlandanna þar sem hún flaug til Noregs til þess að miðla málum vegna deilna milli Framfaraflokksins og Venstre um vegtolla.

Nú er hart deilt um það orðafar sem einn ríkisstjórnarflokkana hefur beitt í umræðum um innflytjendamál. „Ég er á leið heim til þess að við getum dregið úr þessari deilu. Við verðum að stefna fram á við og einbeita okkur að þeim málum sem við höfum fengið samþykkt í fjárlögum og innan ríkisstjórnarinnar,“ er haft eftir Skei-Grande.

Ásakanir um áróður

Fjórir flokkar eiga aðild að norsku ríkisstjórninni og hafa deilur milli Framfaraflokksins og Venstre nú aftur blossað upp, að þessu sinni snýst málið um ásakanir Abid Raja, þingmanns Venstre, á hendur Framfaraflokksins í viðtali á NRK á föstudag.

Í viðtalinu sakar Raja Framfaraflokkinn um að dreifa „brúnum áróðri“ – sem í norsku máli er vísan í brúnu skyrtur nasista – með því að nota orðafar eins og hulda íslamsvæðingu (n. snikislamisering) og bátafarfugla í umræðu um innflytjendamál.

Trine Skei-Grande.
Trine Skei-Grande. Ljósmynd/Mona Lindseth

Solberg bað flokkana á mánudag um að horfa fram á við og segja skilið við deilurnar. Daginn eftir (í gær) ákvað hins vegar Raja að skrifa opið bréf til Solberg í Aftenposten þar sem hann hélt áfram sinni gagnrýni á Framfaraflokkinn og bætti nú við gagnrýni á forsætisráðherra fyrir að hafa ekki tekið undir gagnrýni sína gagnvart Framfaraflokknum.

Mistúlkun og afsökun

Raja fyrir sitt leytihefur tekið til Facebook og sagði í færslu í gærkvöldi að það væri ekki rétt að hann hefði verið að vísa til nasista með ummælum sínum heldur hefði brúni liturinn aðeins verið til þess fallinn að lýsa óskýrum málatilbúnaði Framfaraflokksmanna.

Hann biðst í færslunni afsökunar á því að hafa sært fólk með orðum sínum. „Ég vona líka að Framfaraflokksfólk sjá eftir þeim særindum sem það hefur valdið múslimum með orðafari sínu.“

mbl.is