Óteljandi haturssíður gegn börnum

Skjáskot af einni færslunni á haturssíðunni. Skilaboðin þar eru virkilega …
Skjáskot af einni færslunni á haturssíðunni. Skilaboðin þar eru virkilega særandi. Ljósmynd/Aðsend

Guðmunda Áróra Pálsdóttir komst að því í gærkvöldi að einhver hefði sett upp haturssíðu sem beindist gegn dóttur hennar á samfélagsmiðlinum TikTok. Þar er vægast sagt móðgandi ummælum dreift um dóttur Guðmundu og dóttirin hvött til sjálfsskaða. 

Guðmunda segir að þetta hafi verið mikið áfall. „Þetta var svolítið blaut tuska í andlitið. Þetta er eitthvað sem ég óska engum.“

TikTok er samfélagsmiðill þar sem fólk deilir myndskeiðum og er hann vinsæll meðal barna á grunnskólaaldri. Hver sem er getur skoðað miðilinn og hver sem er búið sér til aðgang, nafnlaust. Aðgangsnöfn sem hefjast á „hötum“ og enda á nafni þess einstaklings sem hatrið beinist að eru orðnir mjög algeng á TikTok að sögn Guðmundu. 

„Þetta er nafnlaust og þetta forrit býður ekki upp á að finna hver býr svona til. Þú getur farið inn á þessa síðu án þess að vera notandi og ef þú skrifar „hötum“ þá er óteljandi mikið af slíkum síðum þarna inni. Dóttir mín er því ekki sú eina sem er að ganga í gegnum þetta. Hún er bara dropi í hafið af börnum sem eru að lenda í neteinelti. Þetta á ekki að líðast.“

Hvetur foreldra til að vera vakandi

Dóttir Guðmundu sagði ekki sjálf frá síðunni en hún vissi samt sem áður af henni. „Hún var hrædd um að við yrðum reið sem er náttúrlega alveg galið en auðvitað eðlileg viðbrögð hjá tíu ára gömlu barni,“ segir Guðmunda. 

Hún hvetur foreldra til þess að vera vakandi fyrir því sem börnin þeirra gera á samfélagsmiðlum. „Það er mikið af einelti í gangi á öllum miðlum, ekki bara á TikTok. Foreldrar eiga að vera vakandi og ekki að hugsa: „barnið mitt gerir ekki svona“. Hvaða barn sem er getur gert svona.“

Margir hafa sett sig í samband við Guðmundu eftir að hún birti færslu á Facebook um málið. Þeir aðilar hafa margir hverjir lent í samskonar og eru ungar manneskjur í dag. 

Dóttir Guðmundu hefur áður lent í einelti en Guðmunda segir mun erfiðara að takast á við neteinelti en „venjulegt“ einelti þar sem erfiðara sé að uppgötva neteinelti.  

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert