„Prinsipp“ að flokkarnir ráði sjálfir

Bergþór Ólason, þingmaður Miðflokks, var í dag kjörinn formaður umhverfis- …
Bergþór Ólason, þingmaður Miðflokks, var í dag kjörinn formaður umhverfis- og samgöngunefndar. mbl.is/Kristinn Magnússon

Bergþór Ólason, nýr formaður umhverfis- og samgöngunefndar, segir það „ákveðið prinsipp“ að flokkar á þingi ráði sjálfir hverja þeir velji til formennsku í þingnefndum. Bergþór var kjörinn formaður nefndarinnar eftir að Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata, hafði stungið upp á því að samflokksmaður Bergþórs, Karl Gauti Hjaltason, tæki við formennsku.

Svo fór ekki og var Bergþór kjörinn með tveimur atkvæðum Miðflokksmanna, en aðrir sátu hjá. Mbl.is tók Bergþór tali eftir að niðurstaðan var ljós. Hann sagði hana ekki koma á óvart.

„Þetta er eins og reiknað var með strax í febrúar þegar ég steig til hliðar sem formaður, að ég tæki aftur við nefndinni, þannig að þetta kemur í sjálfu sér ekki á óvart. Upphaflega var miðað við að það gerðist í vor, en svo yfirtók þriðji orkupakkinn auðvitað allt þá, þannig að við hinkruðum með þetta,“ sagði hann. „Það var ágætis tilefni til að gera þetta núna þegar Þórhildur Sunna [Ævarsdóttir, þingmaður Pírata] tók við stjórnskipunar- og eftirlitsnefndinni og Helga Vala [Helgadóttir, þingmaður Samfylkingar] við velferðarnefndinni,“ segir Bergþór.

Prinsipp að flokkarnir skipi sjálfir til verka

Spurður hvað honum finnist um tillögu Björns Levís og hvort það hafi verið Miðflokksmanna að ákveða hver tæki við formennsku, miðað við samkomulag minnihlutaflokkanna, segir Bergþór að það hafi blasað við. „Það er í sjálfu sér sjálfstætt prinsipp að okkar mati að flokkar ráði því sjálfir hvernig þeir skipi mönnum til verka. Það er ekki annarra flokka að ráða því hvernig Sjálfstæðisflokkurinn skipar sínum mönnum til verka, til dæmis, þó að Vinstri grænir virðist t.a.m. hafa haft áhrif á það að dómsmálaráðherra fór úr embætti hér fyrir nokkrum mánuðum eins og við þekkjum,“ sagði Bergþór. „Okkur þykir skipta máli að halda þessu prinsippi, að flokkar stýri því sjálfir hvernig þeir manna hvern póst.“

Nefndarmenn í umhverfis- og samgöngunefnd á fundi nefndarinnar í dag.
Nefndarmenn í umhverfis- og samgöngunefnd á fundi nefndarinnar í dag. mbl.is/Kristinn Magnússon

Óánægja með formennsku Bergþórs byggist á Klausturmálinu sem upp kom í desember á síðasta ári þegar þingmenn Miðflokksins voru staðnir að því að níða skóinn af öðrum þingmönnum ásamt fleirum á barnum Klaustur, nærri Alþingi. Miðflokksmenn voru í úrskurði siðanefndar Alþingis taldir hafa brotið gegn siðareglum.

„Það hefur legið fyrir að stjórnarandstaðan sé tvískipt, annars vegar Miðflokkurinn og hins vegar það sem ég kalla tíðarandaflokkana. Það kemur ekki á óvart að það sé ósætti þar. Menn geta rétt ímyndað sér hvort allir nefndarmenn séu sáttir við t.a.m. formenn stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar eða velferðarnefndar ef við horfum bara á formennsku stjórnarandstöðuflokkana. Eflaust á það við um fleiri nefndir,“ sagði Bergþór. „Svona er þetta hér á löggjafarsamkundunni,“ sagði hann.

Jón Gunnarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokks, f.m., gegndi formennsku í nefndinn eftir …
Jón Gunnarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokks, f.m., gegndi formennsku í nefndinn eftir að Bergþór lét af embætti í febrúar. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Talar ekki svona um fólk“

Bergþór var upphaflega kjörinn nefndarformaður í krafti samkomulags stjórnarandstöðuflokkanna í upphafi þings um skiptingu í nefndir. Hann segir Miðflokkinn hafa boðið upp á að samkomulagið yrði tekið upp og endurkosið yrði í nefndinni. Sem kunnugt er bættust tveir þingmenn í þingflokk Miðflokks eftir Klaustursmálið.

„Niðurstaðan varð sú að halda við það samkomulag sem gert var eftir kosningar og það felur í sér að við höfum formennsku í umhverfis- og samgöngunefnd. Nú er hún komin aftur til okkar,“ sagði hann.

Spurður hvort Klaustursmálið muni „elta hann“ út kjörtímabilið miðað við þá óánægju sem fram kom vegna formannskjörsins segir hann að ákveðin lína hafi verið dregin í sandinn hvað aðkomu þingsins varði. „Þegar maður kemur sér í stöðu sem þessa verður maður að laga þá vankanta sem á manni sjálfum eru. Þó að ég líti þannig á að ákveðin lína hafi verið dregin í sandinn hvað aðkomu þingsins varðar, þá held ég áfram að reyna að læra og bæta sjálfan mig," sagði Bergþór. „Eins og ég hef margsagt, ítrekað og beðist fyrirgefningar á, þá talar maður ekki svona um fólk eins og þarna var á köflum gert. Þó að eitt og annað útskýrist af samhenginu, þá breytir það ekki því að maður þarf að haga sér með forsvaranlegum hætti,“ sagði hann.

Tvískinnungur alltumlykjandi í málinu

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingmaður Pírata, er nýr formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, eins og áður kom fram. Hún braut siðareglur þingsins samkvæmt úrskurði siðanefndar Alþingis með ummælum sínum um Ásmund Friðriksson, þingmann Sjálfstæðisflokks, þegar hún sagði að rökstuddur grunur væri um lögbrot af hans hálfu.

Spurður um samhengi formennsku hans og formennsku Þórhildar Sunnu í þessu ljósi, svarar Bergþór að það undirstriki „þann tvískinnung sem hafi verið alltumlykjandi í málinu,“ og að aðrar reglur eigi að gilda um aðra en Miðflokksmenn.

„Staðreyndin er auðvitað sú, fyrir manneskju sem er lögfræðimenntuð, að hún á að vita hvað hugtakið rökstuddur grunur þýðir. Það hefur allt gengið út á að formæla þeim sem benda á alvarleika ummæla hennar í því samhengi,“ sagði Bergþór.

Er með sömu rökum hægt að segja að hún eigi ekki að sitja sem formaður nefndarinnar?

„Eflaust, en þú heyrir það ekki frá okkur. Við metum það þannig að hver þingflokkur ráði því hvar hann setur sína þingmenn til verka. Með þessum sömu rökum ætti hún ekki að vera þarna, en ég ber það ekki fyrir mig og finnst það alveg fráleitt,“ sagði Bergþór.

Aðeins Miðflokksmenn greiddu atkvæði með kjöri Bergþórs, aðrir sátu hjá.
Aðeins Miðflokksmenn greiddu atkvæði með kjöri Bergþórs, aðrir sátu hjá. mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert