Spá allt að 20 stiga hita

Kort/Veðurstofa Íslands

Tiltölulega hlýr loftmassi er að færast yfir landið en jafnframt er loftið þrútið af raka. Það mun því rigna talsvert í dag. Á morgun er spáð allt að 17 til 18 stiga hita austanlands. Á föstudag og laugardag getur hitinn farið í 20 stig fyrir norðan.

„Í dag verður suðaustan- og austanátt hjá okkur, strekkingsvindur allvíða, en allhvass eða hvass staðbundið með suðurströndinni og á Reykjanesskaga. Það er tiltölulega hlýr loftmassi sem er að færast yfir landið, en jafnframt er loftið þrútið af raka. Það mun því rigna talsvert í dag og jafnvel mikið sums staðar á Suður- og Vesturlandi. Minni úrkoma um landið norðaustanvert, þó þar fari einnig að rigna upp úr hádegi.

Á morgun er útlit fyrir sunnan 8-13 m/s og áfram vætusamt með um 10 stiga hita. Úrkomulítið austanlands og þar verður hlýrra eða allt að 17 til 18 stig þar sem best lætur.
Það er skemmst frá því að segja að á föstudag og laugardag gera spár ráð fyrir að sunnanáttin haldi áfram með talsverðri rigningu. Líkur eru á að á einhverjum tímapunkti rofi til í norðausturfjórðungi landsins og þá verður hlýtt á þeim slóðum í hnjúkaþey,“ segir í hugleiðingum veðurfræðings á Veðurstofu Íslands.

Veðurspá fyrir næstu daga

Suðaustan og austan 8-13 m/s í dag, en 13-18 með suðvesturströndinni og á Reykjanesi fram undir kvöld. Talsverð rigning og sums staðar mikil á Suður- og Vesturlandi. Úrkomuminna um landið norðaustanvert. Hiti 5 til 11 stig.
Sunnan 8-13 á morgun og með súld eða rigningu og hita 8 til 13 stig, en úrkomulítið austanlands og heldur hlýrra.

Á fimmtudag:
Sunnan 8-13 m/s og rigning, talsverð vestast á landinu. Úrkomulítið austanlands. Hiti 8 til 14 stig, en allt að 18 stig á Austurlandi.

Á föstudag og laugardag:
Ákveðin suðlæg átt og talsverð rigning, hiti 9 til 14 stig. Þurrt að kalla á norðaustanverðu landinu og hiti allt að 20 stig.

Á sunnudag:
Suðlæg eða breytileg átt og rigning um mestallt land. Hiti 8 til 13 stig.

Á mánudag (haustjafndægur) og þriðjudag:
Útlit fyrir suðaustlæga eða breytilega átt. Vætusamt með köflum og milt í veðri.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert