Upplifir hótun af hálfu Miðflokks

Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata, segir þingmenn upplifa hótun af …
Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata, segir þingmenn upplifa hótun af hálfu Miðflokksmanna. mbl.is/Eggert

Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata, kveðst upplifa „ákveðna hótun“ af hálfu Miðflokksmanna um að þeir setji þingstörf á annan endann, fái þeir sínu ekki framgengt. Hann kvaðst óánægður með kjör Bergþórs Ólasonar, þingmanns Miðflokksins, í embætti formanns umhverfis- og samgöngunefndar þegar mbl.is náði tali af honum eftir að niðurstaða kjörsins varð ljós.

Á fundi nefndarinnar í gær stakk Björn Leví upp á því að Karl Gauti Hjaltason, þingmaður Miðflokks, yrði formaður nefndarinnar, en fyrir lá samkvæmt samkomulagi stjórnarandstöðuflokkanna að Miðflokkurinn fengi formennsku í nefndinni. Fundinum í gær var frestað af þessum sökum og kjörið á nýjum fundi í dag.

Bergþór Ólason, þingmaður Miðflokks, var í dag kjörinn formaður umhverfis- …
Bergþór Ólason, þingmaður Miðflokks, var í dag kjörinn formaður umhverfis- og samgöngunefndar. mbl.is/Kristinn Magnússon

Annar miðflokksmaður augljósari kostur

Björn Leví segir í samtali við mbl.is að Karl Gauti hafi verið „augljósari kosturinn“ miðað við samkomulag stjórnarandstöðuflokkanna. „Það er annar Miðflokksmaður í nefndinni sem mér fannst augljósari kostur en formaðurinn miðað við aðstæður,“ sagði Björn Leví.

Hann játar því að það sé Miðflokksins að ákveða hver sitji sem formaður nefndarinnar. „Jú og það koma upp ákveðin tilefni, eins og með dómsmálaráðherra. Sjálfstæðisflokkurinn ræður því hver er ráðherra dómsmála. Það var ástæðan sem var gefin í vantraustsatkvæðagreiðslunni á síðasta þingi. Eftir niðurstöðu Mannréttindadóms Evrópu kom síðan þrýstingur frá öðrum flokkum um að skipta um ráðherra, þannig þetta á alveg eins við  og þarna,“ segir Björn Leví.

„Það koma upp aðstæður þar sem þarf að segja nei og mér finnst þetta vera svoleiðis aðstæður. Slíkar aðstæður voru greinilega í gangi þegar Sigríður Andersen þurfti að segja af sér sem dómsmálaráðherra. Það eru ekki ein sannindi að samkomulagið ráði öllu, alltaf,“ segir Björn Leví. 

„Mér finnst þetta ekki góð niðurstaða fyrir þingið eins og það leggur sig. Við upplifum ákveðna hótun sem þeir gefa um að setja allt þingstarfið í rúst ef þeir fái ekki sínu framgengt. Þeir sýndu í orkupakkamálinu að þeir geta það, orkupakkamálið var til þess að þeir sýndu að þeir gætu sett þingstörfin á annan endann. Aðrir finnst mér eiginlega kóa með því,“ sagði Björn Leví.

mbl.is