Afsöluðu sér jarðhitaréttindum varanlega

Kaldárholti í Rangárvallasýslu. Hægra megin á myndinni, við ána, er …
Kaldárholti í Rangárvallasýslu. Hægra megin á myndinni, við ána, er borholan sem Hitaveita Rangæinga reisti um síðustu aldamót. Ljósmynd/Halldór Kolbeins

Landeigendur jarðarinnar Kaldárholts afsöluðu sér varanlega jarðhitaréttindum á jörðinni með samningi við Hitaveitu Rangæinga árið 1998. Þetta er niðurstaða Hæstaréttar frá í gær sem staðfesti þar með fyrri niðurstöður Héraðsdóms Reykjavíkur og Landsréttar.

Landeigendur kröfðust þess að viðurkennt yrði að samningurinn hefði veitt Orkuveitu Reykjavíkur og Veitum tímabundinn rétt til að bora eftir heitu vatni á jörðinni og virkja þar og nýta jarðhita til 25 ára. Orkuveita Reykjavíkur tók yfir rekstur hitaveitunnar árið 2005 og þar með eignir hennar og skuldbindingar og er þar af leiðandi aðili málsins í dag. Auk þess vildu landeigendur að viðurkennd yrði greiðsluskylda vegna nýtingar á heitu vatni umframtiltekinn rúmmetrafjölda á ári á árunum 2012 til 2016.

Tekist var á um forsendur samningins og orðalag í samningnum, en þar er talað um að hitaveitan skuli greiða sem jafngildir 50% nýtingu á 20 l/mín vatnsrennsli, en það eru 5.256 rúmmetrar á ári. Þá segir að greiða skuli fyrir nýtinguna með núvirðisútreikningum til næstu 25 ára, en það nam tæplega 5 milljónum árið 1998. Þá voru fyrirvara um hitastig vatnsins og einnig að greidd yrði aukagreiðsla eftir þrjú ár ef hitastigið væri hærra en 64°C. Þá greiddist viðbótagreiðsla „í einu lagi og í eitt skipti fyrir öll.“ Reyndist vatnið heitara en 64°C og fengu landeigendur greiðslu í samræmi við það.

Árið 2015 setti Orkuveitan sig í samband við landeigendur með það fyrir augum að leigja landspildu á jörðinni til að reisa þar mannvirki. Óskuðu þá landeigendur eftir upplýsingum um það magn sem hefði verið dælt úr borholunum árin 2012 til 2016 sem og hitastigi vatnsins.

Umframgreiðslan hefði verið 831 milljón upp í 1,2 milljarða

Reyndist vatnið enn á svipuðu róli og það hafði verið áður fyrr, en uppdælt magn var 9,3 milljón rúmmetrar, eða 1,8 milljón rúmmetrar á ári. Óskuðu landeigendur eftir greiðslu fyrir umframmagn á uppdældu vatni umfram þá 5.256 rúmmetra sem talað var um í samningnum, en upphæð fyrir þá umframdælingu hefði verið 831 milljón á verðlagi ársins 1998 og 1,2 milljarðar miðað við markaðsverð á heitu vatni árið 2012 til 2016.

Orkuveitan hafnaði þessum kröfum og sagði að nýtingarréttur samkvæmt samningnum væri ekki bundinn við tilskilið magn þó að greiðsla hefði tekið mið af magni í reikniforsendum. Stefndu landeigendur Orkuveitunni í kjölfarið.

Fjarstæðukennt að hitaveitan hefði gert slíkan samning

Í niðurstöðu Hæstaréttar kemur fram að í samningnum hafi hvergi komið fram að ráðstöfunin væri tíma- eða magnbundin með einum eða öðrum hætti. Þá er vísað til þess, sem kom fram við meðferð málsins, að 5.256 rúmmetra viðmiðunarmagnið væri einungis nægjanlegt magn fyrir um 10 íbúðahús á ári og skilaði um 400 þúsund krónum í smásöluverði. Hins vegar hafi fjárfesting hitaveitunnar verið upp á marga tugi milljóna, en hún var meðal annars metin á 171 milljón í bókum hitaveitunnar skömmu eftir að hún reis. „Er í þessu ljósi fjarstæðukennt að hitaveitan hefði gert samning sem fæli aðeins í sér réttindi til að nýta svo óverulegt magn af vatni,“ segir í dómi Hæstaréttar.

Eins og að framan greinir var Orkuveitan sýknuð af kröfum landeiganda, bæði hvað varðar að samningurinn hafi átt að vera tímabundinn og líka að greiða ætti fyrir uppdælt magn umfram 5.256 rúmmetra á ári.

Dómur Hæstaréttar í heild sinni.

mbl.is