Eldur í kjallaraíbúð í Kópavogi

Eldsvoði og vatnslekar voru á meðal verkefna slökkviliðsins á höfuðborgarsvæðinu …
Eldsvoði og vatnslekar voru á meðal verkefna slökkviliðsins á höfuðborgarsvæðinu í nótt. mbl.is/Árni Sæberg

Eldur kom upp í kjallara íbúðarhúss við Álfhólsveg í Kópavogi laust eftir miðnætti. Íbúar voru búnir að koma sér út úr húsinu þegar lögregla kom á vettvang, að því er fram kemur í dagbók lögreglunnar. 

Kjallarinn er notaður sem geymsla og var þar mikill eldur og var eldurinn einnig kominn í klæðningu hússins.

Slökkviliðsbílar frá þremur stöðvum voru sendar á staðinn að sögn varðstjóri slökkviliðsins og greiðlega gekk að slökkva eldinn. 

Ekki er vitað um eldsupptök og var vettvangur innsiglaður af lögreglu. 

Töluverður erill var hjá slökkviliði í nótt að sögn varðstjóra, einkum vegna vatnsleka, en mikil úrkoma hefur verið á höfuðborgarsvæðinu síðasta sólarhringinn. Slökkvilið sinnti þremur útköllum vegna vatnsleka, bæði í heimahúsum og fyrirtækjum í borginni. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert