Þyrlan kom ferðamönnunum úr sjálfheldu

Þyrlan var um tíu mínútur á vettvangi.
Þyrlan var um tíu mínútur á vettvangi. Ljósmynd/Landhelgisgæsla Íslands

Ferðamennirnir sem voru innlyksa í Langavatnsdal þar sem vegur fór í sundur vegna vatnavaxtar eru komnir heilu og höldnu til Reykjavíkur eftir að þyrla Landhelgisgæslunnar var send á vettvang til að ná í þá. Þetta staðfestir Ásgeir Erlendsson, upplýsingafulltrúi Landhelgisgæslunnar, í samtali við mbl.is.

„Þyrlan lenti á Reykjavíkurflugvelli fyrir tveimur mínútum. Eftir því sem ég kemst næst amaði ekkert að fólkinu,“ sagði Ásgeir.

Björgunarsveitir á Vesturlandi voru kallaðar út um eittleytið í dag vegna fólks sem var innlyksa á vegi á Langavatnsdal þar sem vegur hafði farið víða í sundur. Sambandið á svæðinu var stopult og gekk því erfiðlega að staðsetja fólkið. Þegar það tókst loksins var ljóst að ekki var hægt að komast að fólkinu með góðu móti nema með þyrlu.

Lögreglan á Vesturlandi óskaði í framhaldinu eftir aðstoð Landhelgisgæslunnar og fór þyrlan, TF-LIF, í loftið klukkan 14:44 og var komin á staðinn rúmum 20 mínútum síðar. Áhöfn þyrlunnar var um það bil tíu mínútur að athafna sig á vettvangi áður en stefnan var tekin aftur til Reykjavíkur.

Talið er að ferðamennirnir hafi verið þrír saman á ferðalagi en það hefur ekki verið staðfest. Þeir eru taldir vera við góða heilsu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert