Fjölga póstboxum úr átta í 43

Meirihluti nýju póstboxanna verða sett upp á höfuðborgarsvæðinu.
Meirihluti nýju póstboxanna verða sett upp á höfuðborgarsvæðinu. Ljósmynd/Íslandspóstur

Uppsetning 35 nýrra póstboxa á vegum Íslandspósts hefst næsta vor og bætast þau við þau átta póstbox sem fyrir eru á höfuðborgarsvæðinu, en nú verða póstbox sett upp á landsbyggðinni í fyrsta sinn.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Íslandspósti, en þar segir að fjölgun póstboxa sé liður í aðgerðaáætlun til að stórauka þjónustu og bæta upplifun. Þá er pósturinn einnig í viðræðum um að setja upp pakkastöðvar með samstarfsaðilum.

Meirihluti nýju póstboxanna verður settur upp á höfuðborgarsvæðinu, en þau verða einnig sett upp á völdum stöðum á landsbyggðinni. Nánari staðsetningar póstboxa liggja ekki fyrir en verið er að greina hentugar staðsetningar út frá magni og eftirspurn.

Notendum fjölgar með degi hverjum

Samkvæmt tilkynningu fara vinsældir póstboxa sem afhendingarleið vaxandi og fjölgar notendum þeirra með hverjum degi. 

„Umbreyting Íslandspósts hvílir á tveimur jafn mikilvægum stoðum, annars vegar þarf að breyta tapi í hagnað og ná stjórn á rekstrinum, en við teljum okkur vera komin með tök á því verkefni með hagræðingu í launakostnaði, almennu kostnaðaraðhaldi og öðrum aðgerðum en við búumst við að árangur fari að sjást á næstu mánuðum. Hins vegar er verkefnið að bæta og í raun stórauka þjónustu við viðskiptavini okkar og gera Póstinn að þjónustumiðuðu fyrirtæki,“ segir Birgir Jónsson, forstjóri Íslandspósts.

„Stórt net Póstboxa er gríðarlega mikilvægur burðarbiti í þessari þjónustumiðuðu framtíðarsýn okkar, en með þeim getur viðskiptavinurinn ráðið hvar og hvenær sólarhrings hann nálgast sínar sendingar og í framtíðinni aðra þjónustu Íslandspósts.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert