Hætta á skriðuföllum vegna úrhellisrigningar

Appelsínugul viðvörun er í gildi á Faxaflóa og í Breiðafirði. …
Appelsínugul viðvörun er í gildi á Faxaflóa og í Breiðafirði. Gul viðvörun á Vestfjörðum. Kort/Veðurstofa Íslands

„Það hefur flætt inn í kjallara í morgun og það er ennþá hætt við því að niðurföll stíflist og að afrennsliskerfi hafi ekki undan þannig að það geti flætt inn í kjallara, bílskúra og geymslur,“ segir Þorsteinn V. Jónsson, veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands, í samtali við mbl.is.

Gul viðvörun er í gildi á Vestfjörðum og appelsínugul viðvörun í Faxaflóa og Breiðafirði vegna úrhellisrigningar. Viðvarirnar verða í gildi þangað til klukkan sex á föstudagsmorgun. Búast má við auknu afrennsli og vatnavöxtum í ám og lækjum sem eykur hættu á flóðum og skriðuföllum.

„Við erum að vara við úrkomunni í dag og hún mun halda áfram á morgun og jafnvel næstu daga. Við teljum að hættan sé liðin hjá í Reykjavík en hún er áfram á Vesturlandi, Breiðafirði og á Vestfjörðum,“ bætir hann við.

Þeir sem ferðast á þessum slóðum eru varaðir við því að árnar hafa vaxið mjög mikið og geta verið hættulegar yfirferðar. Þá er hætta á að minni vegir fari í sundur en það hefur nú þegar gerst í Svínadal þar sem björgunarsveitamenn reyna nú að komast að fólki sem er innlyksa vegna vatnavaxta á Langavatnsvegi.

„Við erum líka á varðbergi gagnvart skriðum. Það er alltaf hætta á þeim þegar rignir svona lengi,“ segir hann að lokum.

Athugasemdir sérfræðings Veðurstofu Íslands:

„Mikil úrkoma hefur verið á vesturhelmingi landsins síðastliðinn sólarhring og áfram er spáð úrkomu fram á morgundaginn. Því hefur rennsli í ám og lækjum aukist mjög og má búast við áframhaldandi vatnavöxtum og auknum líkum á skriðuföllum. Sjá nánar appelsínugular viðvaranir. Nú þegar hefur vatn sumstaðar flætt yfir vegi, sjá nánar á vef Vegagerðarinnar

Lítið hlaup er enn í gangi í Skaftá. Hlaupið kemur úr Vestari-Skaftárkatli en síðast hljóp úr katlinum í ágúst 2018 og er því ekki búist við að um stórt hlaup verði að ræða. Fólki er bent á að staldra ekki lengi við nálægt upptökum árinnar vegna hugsanlegrar gasmengunnar. Fylgst verður með gangi mála á Veðurstofunni.“

Fréttin var uppfærð klukkan 15:14.

mbl.is