„Hvar er þetta samráð?“

Þorsteinn Víglundsson, þingmaður Viðreisnar.
Þorsteinn Víglundsson, þingmaður Viðreisnar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Mér hefur verið nokkuð hugleikið samráðsleysi þessarar ríkisstjórnar varðandi samgöngumál höfuðborgarsvæðisins við minnihlutann á þingi,“ sagði Þorsteinn Víglundsson, þingmaður Viðreisnar.

Fram kom í frétt RÚV í morgun að bæjarstjórum á höfuðborgarsvæðinu hafi verið send drög að breyttu samkomulagi ríkis og sveitarfélaga um uppbyggingu samgangna. Þar er um að ræða önnur drög en þau sem voru kynnt fyrir sveitarfélögum fyrir tveimur vikum.

Þorsteinn vitnaði í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar um þverpólitískt samráð risaframkvæmda. „Hvar er þetta samráð?“ spurði Þorsteinn.

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra.
Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þingmönnum boðið til kynningar í vikunni

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, sagði að allir þingmenn hefðu komið að vinnu samgönguáætlunar. Hann benti á að starfshópur, með fulltrúum alla flokka, hefði verið skipaður þar sem rætt væri hvað ætti að gera til að leysa umferðarhnúta og þau vandræði á höfuðborgarsvæðinu.

Ég hef litið svo á að við séum að vinna þetta í eins opnu ferli og hægt er. Satt best að segja bauð sá sem hér stendur þingmönnum til kynningar fyrir nokkrum dögum. Fyrst þáðu menn það boð en síðan sáu menn að hægt var að búa til pólitískan leik um eitthvert samráðsleysi og tvíbókanir,“ sagði Sigurður Ingi. Umræddum fundi var frestað eftir að þingmenn kvörtuðu og sögðust ekki bæði getað verið í þingsal og á kynningarfundi.

Þorsteinn sagði að það væri ánægjulegt að fá hugmyndir um hvernig tekið verði á miklum samgönguvanda á höfuðborgarsvæðinu. Hann gagnrýndi þó þá hugmynd að íbúar höfuðborgarsvæðisins eigi að greiða tvöfalt, í fyrsta lagi þau eldsneytisgjöld sem ætlað er að fjármagna framkvæmdir í samgöngukerfinu og að auki veggjöld sérstaklega sem ekki verða lögð á neins staðar annars staðar á landinu.

Er það réttur skilningur að það sé upplegg þessarar ríkisstjórnar að íbúar höfuðborgarsvæðisins eigi að borga tvöfalt fyrir samgöngubætur sínar?

Sigurður Ingi sagði að unnið væri að tímamótasamkomulagi í samgöngumálum en Þorsteinn væri að búa til einhverja umræðu í anda átakastjórnmála.

Það er einmitt í anda ímyndar- og átakastjórnmála. Búum bara til hávaða og stæla, vinnum ekki vinnuna okkar og vöndum ekki til verka. Hvar voru skilaboðin um minna fúsk og meiri ábyrgð?“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert