Innlyksa í Langavatnsdal vegna vatnavaxta

Vegurinn er í sundur á mörgum stöðum.
Vegurinn er í sundur á mörgum stöðum. Ljósmynd/Slysavarnafélagið Landsbjörg

Björgunarsveitir á Vesturlandi voru kallaðar út núna rétt um eittleytið í dag vegna fólks sem er innlyksa á vegi 553 í Langavatnsdal. Vegurinn er í sundur nánast alls staðar þar sem ræsi eru og reyna björgunarmenn nú að fikra sig fram hjá þeim hindrunum til að komast að fólkinu.

Þetta segir Davíð Már Bjarnason, upplýsingafulltrúi Landsbjargar, í samtali við mbl.is. Björgunarsveitafólk er ekki með nákvæma staðsetningu á fólkinu þar sem erfiðlega hefur gengið að ná sambandi við það. 

Vegna samskiptaörðugleika er ekki á hreinu hvernig fólkið er búið eða hvort það er í hættu.

Björgunarsveitafólk komst ekki að fólkinu vegna vatnavaxtar og var því …
Björgunarsveitafólk komst ekki að fólkinu vegna vatnavaxtar og var því kallað á þyrlu Landhelgisgæslunnar. Ljósmynd/Slysavarnafélagið Landsbjörg

Gul viðvörun er í gildi á Vestfjörðum, Breiðafirði og Faxaflóa vegna mikils úrhellis og segir veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands að úrhellisrigning verði þar alveg fram á föstudagsmorgun.

Þyrla Landhelgisgæslunnar, TF-LIF hefur verið kölluð út til að komast að fólkinu. Þyrlan lagði af stað frá Reykjavík klukkan 14:44 og búist er við að flug þyrlunnar taki rúman hálftíma. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Landhelgisgæslunni.

Aðstæður á vettvangi eru varasamar.
Aðstæður á vettvangi eru varasamar. Ljósmynd/Slysavarnafélagið Landsbjörg

Uppfært klukkan 15:10.

Í upprunalegri frétt kom fram að fólkið væri innlyksa á vegi 502 í Svínadal en hið rétta er að um er að ræða veg 553 í Langavatnsdal. Í tísti Vegagerðarinnar segir að vegur 502 sé í sundur en ekki er ljóst hvort að um sé að ræða mistök hjá Vegagerðinni eða hvort báðir vegir séu í sundur. Fyrirsögn fréttarinnar var breytt.

Vegagerðin vinnur að því að laga veginn.
Vegagerðin vinnur að því að laga veginn. Ljósmynd/Slysavarnafélagið Landsbjörg
Ár flæða yfir vegi á svæðinu.
Ár flæða yfir vegi á svæðinu. Ljósmynd/Slysavarnafélagið Landsbjörg
Hætta er á því að það grafi undan brúm.
Hætta er á því að það grafi undan brúm. Ljósmynd/Slysavarnafélagið Landsbjörg
mbl.is