Ummæli Hörpu „óskiljanleg“

Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB, segir margt í viðtalinu við …
Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB, segir margt í viðtalinu við Hörpu Ólafsdóttur ekki gefa rétt mynd af stöðunni. Haraldur Jónasson/Hari

Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB, segir sumt sem Harpa Ólafsdóttir, formaður samninganefndar Reykjavíkurborgar, segir í samtali í Morgunblaðinu í dag um kjaraviðræður borgarinnar og stéttarfélaga vera óskiljanlegt. Helsta deiluefnið hefur verið stytting vinnuvikunnar og segir Harpa frá tilboði borgarinnar, sem hafi hljóðað upp á þremur klukkustundum styttri viðveru starfsfólks í hverri viku. Þá sagði hún eðlilegt að stéttarfélögin tækju sér tíma til að fara yfir tilboðið.

Eins og fyrr segir segir Sonja að þessi ummæli séu óskiljanleg sökum þess að BSRB hafi hafnað umræddu tilboði strax í vor. Það hafi þau gert vegna þess að tilboðið fól í sér að starfsmenn seldu frá sér kaffitíma og fól því ekki í sér raunverulega styttingu vinnuviku. „Við höfum verið mjög skýr með það frá upphafi að þessu hafi verið hafnað og við munum ekki ræða þetta frekar á þessum grundvelli,“ segir Sonja. „Allt tal um að stéttarfélögin séu að taka sér tíma til að fara yfir tilboðið er óskiljanlegt. Við höfnum algjörlega fullyrðingum um að bandalagið hafi ekki komið af heilum hug í þessa vinnu, enda hefur stytting vinnuvikunnar verið eitt helsta baráttumál BSRB árum saman og stærsta krafa bandalagsins í yfirstandandi kjarasamningsviðræðum.“

„Beinlínis rangt“

BSRB hefur síðustu ár unnið með ríkinu og Reykjavíkurborg í tveimur tilraunaverkefnum um styttingu vinnuvikunnar, sem hafa gefið góða raun, að Sonju sögn. „Bæði í verkefninu hjá ríkinu og hjá borginni voru niðurstöðurnar mjög jákvæðar. Þær sýna fram á að styttri vinnuviku fylgir aukin starfsánægja og að auðveldara sé að samþætta atvinnu- og fjölskyldulíf, án þess að það bitni á afköstum eða þjónustu.“ Því hafi hugmyndafræði BSRB um styttingu vinnuvikunnar snúist um að laun eða önnur réttindi séu ekki skert á móti. 

Verkefni BSRB og borgar og ríkis hafa sýnt fram á …
Verkefni BSRB og borgar og ríkis hafa sýnt fram á að styttri vinnuvika hefur í för með sér meiri vellíðan meðal starfsmanna. mbl.is/Kristinn Magnússon

Sonja nefnir einnig að Harpa hafi í viðtalinu í dag sagt að niðurstaða tilraunaverkefnisins hafi verið sú að ekki væri hægt að halda því verkefni áfram nema með viðbótarmönnun og viðbótarfjármagni. „Þetta er beinlínis rangt,“ segir Sonja. „Niðurstöðurnar fjalla alls ekki um þetta. Niðurstöðurnar fjölluðu einmitt um að þetta væri hægt, bæði á dagvinnustöðum og vaktavinnustöðum án þess að þeir fengju viðbótarfjármagn. Hins vegar er ljóst að sumir vinnustaðir sem eru með sólarhringsvaktir gætu þurft viðbótarfjármagn, en það hefur legið fyrir frá upphafi.“

Að síðustu nefnir Sonja ummæli Hörpu um að tilraunaverkefnið hafi bara náð til mjög afmarkaðs hóps. Það sé heldur ekki rétt því verkefnið hafi náð til um fjórðungs allra starfsmanna Reykjavíkurborgar. Um 2.200 af þeim 8.500 starfmönnum sem starfa hjá borginni, að því er fram kemur á vef BSRB. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert