Verðum að geta tekið óþægilegu umræðurnar

„Við vorum t.d. skömmuð fyrir að segja alltaf að við …
„Við vorum t.d. skömmuð fyrir að segja alltaf að við séum einsleitt samfélag, því það er í rauninni liðin tíð.“ mbl.is

„Ég held það sé óhætt að segja að þetta hafi verið alger hörkuráðstefna,“ segir Halla Gunnarsdóttir, jafnréttisráðgjafi ríkisstjórnarinnar, í samtali við mbl.is að alþjóðlegu #MeToo-ráðstefnunni í Hörpu lokinni.

Ráðstefnan bar heitið #MeToo Moving Forward og hana sóttu um 800 manns, þar af um 200 erlendir gestir. Fyrirlesarar voru 80 og 50 þeirra erlendir, og var markmiðið að taka stöðuna tveimur árum eftir myllumerkisbyltinguna.

„Þetta voru ofboðslega ítarlegar umræður, sumar óþægilegar, en til þess að geta haldið áfram þarf að eiga þessar óþægilegu umræður,“ segir Halla.

Ekki lengur einsleitt samfélag

Þannig hafi sérstaklega verið fjallað um raddir sem heyrist og raddir sem heyrist ekki, sem og sögur sem séu sagðar en ekki sé hlustað á. „Við fjölluðum sérstaklega um samspil kyns við ýmsar aðrar breytur eins og kynþátt og stétt og stöðu innflytjenda. Það var mjög kröftug umfjöllun og ég held að Norðurlöndin þurfi að taka svolítið mikið með sér úr þeirri umræðu.“

„Við vorum t.d. skömmuð fyrir að segja alltaf að við værum einsleitt samfélag, því það er í rauninni liðin tíð. Við verðum að breyta þessari orðanotkun. Við getum ekki sagst standa okkur vel í kynjajafnrétti, eða raunar í nokkru öðru, ef við getum ekki fengist við kynþátt og stétt um leið,“ segir Halla.

Halla Gunnarsdóttir, jafnréttisráðgjafi ríkisstjórnarinnar.
Halla Gunnarsdóttir, jafnréttisráðgjafi ríkisstjórnarinnar.

Hún segir að þetta sé sérstaklega eitthvað sem Norðurlöndin þurfi að taka til sín og Ísland ekki síst.

Málstofa fatlaðra kvenna illa sótt

Þá hafi fatlaðar konur verið með málstofu sem þeim fannst ekki nógu vel sótt. „Ég held það sé mikilvægt að taka það alvarlega. Mismunun gegn fötluðum konum er allt annars eðlis og við verðum að fjalla sérstaklega um það ef við ætlum að skilja það, og stefnumótun virkar ekki nema við skiljum það.“

Ráðstefnuna sóttu um 800 manns, þar af um 200 erlendir …
Ráðstefnuna sóttu um 800 manns, þar af um 200 erlendir gestir. mbl.is/Kristinn Magnússon

Hvað framhaldið varðar segir Halla mikilvægt að haldið sé áfram að stúdera þessar ólíku hliðar kynjamisréttis. „Ég held að næsta stóra viðfangsefnið á Norðurlöndunum sé að læra betur inn á margþætta mismunun. Það er alveg sanngjarnt að segja að við höfum verið að reyna í orði, en á þessari ráðstefnu þá held ég að við höfum öðlast dýpri skilning á þýðingu þessa í norrænu samhengi.“

mbl.is