Vilja átak til að ýta undir íþrótta- og tómstundanám í hverfi 111

Notkun frístundakorta að þátttaka barna í skipulögðu íþrótta- og tómstundastarfi …
Notkun frístundakorta að þátttaka barna í skipulögðu íþrótta- og tómstundastarfi árið 2018 var lökust í hverfi 111. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Lagt er til að Reykjavíkurborg fari í sérstakt átak við að auka þátttöku barna í hverfi 111, sem er Fella- og Hólahverfi, til íþrótta- og tómstundanáms meðal annars með því að nota  frístundakortið. Áheyrnarfulltrúar Flokks fólksins lögðu tillögu þess efnis fram á borgarráðsfundi sem haldinn var í dag. Tillögunni var vísað til menningar-, íþrótta- og tómstundaráðs.

Þar kemur fram að í yfirliti yfir þátttöku barna í skipulögðu starfi árið 2018 og notkun frístundakorta að þátttakan er lökust í hverfi 111. Þátttaka stúlkna í þessu hverfi er 66% og þátttaka drengja er 69%. Til samanburðar má nefna að mest er skráning í frístundastarf í hverfi 112, sem nær yfir hverfi í Grafarvogi, drengir með 94% og stúlkur 85% skráningu. Bent er á að ástæðurnar geta verið af ýmsum toga.

„Hverfi 111 er Fella- og Hólahverfi og þar er eitt mesta fjölmenningarsamfélagið í borginni. Flokkur fólksins hefur spurt um stöðu barna í Fella- og Hólahverfi. Þar býr hæsta hlutfall fólks sem er af erlendu bergi brotið.“ Segir í tillögunni. Bent er á að stór hópur barna í hverfinu búi við félagslega einangrun og margir glími við fátækt. Hins vegar eru ekki til upplýsingar hjá íþrótta- og tómstundasviði Reykjavíkurborgar um hlutfall þátttöku barna af erlendum uppruna.

„Möguleg skýring á minni þátttöku barna í hverfinu er að hér er um efnalitla og fátæka foreldra að ræða sem eiga e.t.v. ekki annan kost en að nota frístundakort barnanna til að greiða gjald frístundaheimilis svo foreldrarnir geti verið á vinnumarkaði. En það er auðvitað ekki markmiðið með frístundakortinu,“ segir ennfremur í tillögunni. 

mbl.is