Danir gefa Gæslunni vélmenni til sprengjueyðingar

Ásgrímur L. Ásgrímsson, framkvæmdastjóri aðgerðasviðs Landhelgisgæslunnar ásamt einum dönsku sérfræðinganna.
Ásgrímur L. Ásgrímsson, framkvæmdastjóri aðgerðasviðs Landhelgisgæslunnar ásamt einum dönsku sérfræðinganna. Ljósmynd/Landhelgisgæslan

Fulltrúar Landhelgisgæslunnar tóku í vikunni á móti tveimur vélmennum til sprengjueyðingar frá danska hernum. Greint er frá þessu á vef Landhelgisgæslunnar.

Vélmennin eru þýsk og hafa sl. áratug verið í eigu danska landhersins. Danir endurnýjuðu hins vegar sín vélmenni fyrir skemmstu og ákváðu þá að gefa Landhelgisgæslunni tvö eldri vélmenni. Segir í fréttinni að undanfarna áratugi hafi verið gott samstarf milli danska landhersins og séraðgerða- og sprengjueyðingarsveitar Landhelgisgæslunnar.

Vélmennin eru hönnuð til að aftengja sprengjur í þröngu rými.
Vélmennin eru hönnuð til að aftengja sprengjur í þröngu rými. Ljósmynd/Landhelgisgæslan

Danskir sérfræðingar komu með vélmennin til landsins og munu þeir sjá um að þjálfa íslensku sprengjusérfræðinganna í notkun vélmennanna. „Þá hafa sprengjusérfræðingar Landhelgisgæslunnar hlotið grunnþjálfun og ýmsa framhaldsþjálfun hjá danska landhernum sem hefur verið Landhelgisgæslunni að kostnaðarlausu,“ að því er fram kemur í fréttinni. Eru helstu kostir þessara vélmenna, umfram þau vélmenni sem Landhelgisgæslan á fyrir, sagðir vera að þau eru sérstaklega hönnuð til að aftengja sprengjur í þröngu rými.

Danir hafa áður gefið Landhelgisgæslunni búnað sem hefur reynst vel við þjálfun og sprengjueyðingu.

Vélmennin eru framleidd í Þýskalandi og eru tíu ára.
Vélmennin eru framleidd í Þýskalandi og eru tíu ára. Ljósmynd/Landhelgisgæslan
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert