Enn einn blautur dagur í vændum

Varað er við vatnavöxtum og auknum líkum á skriðuföllum á …
Varað er við vatnavöxtum og auknum líkum á skriðuföllum á vesturhelmningi landsins og er fólki bent á að fylgjast vel með veðurspám og viðvörunum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Enn einn blauti dagurinn er í vændum á Suður- og Vesturlandi í dag, að því er segir í hugleiðingum veðurfræðings á Veðurstofu Íslands. Mun minni úrkoma verður annars staðar á landinu.

Appelsínugul viðvörun vegna úrkomu er í gildi á Faxaflóa og Breiðafirði en gul viðvörun á Vestfjörðum. Þá er varað við vatnavöxtum og auknum líkum á skriðuföllum á vesturhelmingi landsins og er fólki bent á að fylgjast vel með veðurspám og viðvörunum. 

Um helgina má búast við suðaustlægari átt, vætu á köflum en lengst af þurru á Norður- og Austurlandi og þar verða einnig hæstu hitatölurnar og gætu daðrað við 20 stigin þar. Annars staðar verður þokkalega milt og hitinn víða 9 til 14 stig.

Eftir helgi er von á austlægari vindi og þá kólnar heldur og mun mesta úrkoman smám saman færa sig yfir á suðaustanvert landið.

Veðurvefur mbl.is

mbl.is