Vilja efla ferðaþjónustu á landsbyggðinni

Jóhannes Þór, framkvæmdastjóri SAF.
Jóhannes Þór, framkvæmdastjóri SAF. mbl.is/Kristinn Magnússon

Samtök ferðaþjónustunnar hafa tekið saman tíu leiðir til að efla ferðaþjónustu, atvinnulíf og lífskjör á landsbyggðinni. Tillögurnar voru kynntar í beinni útsendingu á Facebook-síðu Samtaka ferðaþjónustunnar. Þeim er ekki ætlað að vera tæmandi heldur benda á ýmislegt sem er hægt og þarft að gera.

Atriðin tíu eru eftirfarandi:

Skýr áhersla á markaðssetningu Íslands sem ferðaþjónustulands. Þar verði lögð aukin áhersla á markssetningu kaldari svæða, þar sem ónýttir innviðir eru fyrir hendi. Auk þess verði aukin áhersla á markaðssetningu gagnvart heimamarkaði, sem er mjög mikilvægt fyrir landsbyggðina.

Flugvellir og flugsamgöngur verði byggðar upp á Akureyri og Egilsstöðum. Í því samhengi má nefna nýjar gáttir fyrir alþjóðaflug um Akureyri og Egilsstaði.

Beinni samgöngutengingu verði komið á milli Keflavíkur- og Reykjavíkurflugvallar á meðan núverandi skipulag alþjóða- og innanlandsflugs er við lýði.

Þróun áfangastaðaáætlana og áfangastaðastofa flýtt. Markaðssetning á ferðamannaleiðum með áherslu á vannýt landsvæði byggð upp en í því samhengi er talað um Norður­strand­ar­leið.

Framkvæmdir í samgöngukerfi taki mið af raunþörfum ferðaþjónustu á landsbyggðinni. Dæmi er tekin af Dettifossvegi, Vatnsnesvegi og Kjalvegi. Vegagerðin taki mið af þörfum ferðaþjónustunnar við framkvæmdir.

Sveitarfélög marki sér stefnu og markmið og ákveði með hvaða hætti þau muni styðja við uppbyggingu ferðaþjónustu á sínu svæði og í samvinnu við önnur sveitarfélög.

Eftirlit með ólöglegri starfsemi verði aukið og gert skilvirkara á landsbyggðinni. Þar þurfi eftirlitsaðilar að vinna saman og samstarf þeirra þurfi að vera sýnilegra.

Lagaumhverfi heimagistingar verði endurskoðað með aðstæður á landsbyggðinni í huga. Eftirlit með leyfislausri heimagistingu gert skilvirkara, t.d. með því að sýslumaðurinn í Reykjavík geri þjónustusamninga við sýslumenn á landsbyggðinni vegna eftirlits og skýrari aðkomu lögreglu.

Ferðaþjónustan verði gerði sýnilegri í úthlutun nýsköpunarfjármagns, sér í lagi verði ýtt undir fjárfestingu á köldum svæðum.

Stjórnvöld hugi betur að samkeppnishæfni ferðaþjónustu hér á landi. Tekin verði skýr skref til að bæta rekstrarumhverfi fyrirtækja og lækka opinberan kostnað í rekstri þeirra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert