Landsréttur staðfesti sýknudóm í nauðgunarmáli

Landsréttur staðfesti sýknudóm Héraðsdóms í nauðgunarmáli.
Landsréttur staðfesti sýknudóm Héraðsdóms í nauðgunarmáli. mbl.is/Hallur Már

Landsréttur staðfesti sýknudóm Hérðasdóms Suðurlands yfir karlmanni af nauðgunarkæru. Dómur þess efnis var kveðinn upp í dag. Karlmaðurinn hefur ávallt neitað sök en konan fullyrðir að samræðið hafi átt sér stað án hennar samþykkis. Atvikið átti sér stað 24. febrúar 2017.

Karlmaðurinn hefur ávallt neitað sök að hafa haft samræði og önnur kynferðismök við konuna gegn vilja hennar með því að beita hana ofbeldi og ólögmætri nauðung.  Konan fullyrðir að samfarir hafi átt sér stað gegn sínum vilja. Dómurinn taldi ekki sannað að atvikið væri hafið „yfir skynsamlegan vafa“ þar af leiðandi var dómur Héraðsdóms Suðurlands staðfestur. Orð stendur gegn orði því engin vitni voru að meintri nauðgun í hlöðu á Suðurlandi.

Konan og maðurinn þekktust því hún hafði starfað hjá manninum. Umrætt föstudagskvöld voru þau ásamt nokkrum öðrum vinum og félögum  að neyta áfengis meðal annars á kaffistofu á landsbyggðinni. Eftir að leiðir hópsins skildi ber þeim ekki saman um hvernig því varð háttað að þau hittust á nýjan leik í hlöðu þar sem meint brot átti sér stað.

Daginn eftir, á laugardeginum, leitaði konan á Neyðarmóttöku fyrir þolendur kynferðisofbeldis í Reykjavík og gekkst undir réttarlæknisfræðilega skoðun. Þar kemur meðal annars fram: „Er skýr og skellegg [sic] og segir skýrt frá án allrar tilfinningasemi en gerir sér fulla grein fyrir að  þetta vildi hún ekki. Er ekki beint hrædd við geranda en meira býður við honum og ætlar ekki að umgangast hann frekar. Finnur reiði.“

Í skýrslu læknis sem skoðaði hana kemur fram að nýlegt mar er á innaverðu hné konunnar og eymsli í spöng og leggöngum. Fyrir dómi kemur fram að þessir áverkar gætu samræmst harkalegu kynlífi. Hins vegar segir í dómnum að ekki sé hægt að byggja sakfellingu á niðurstöðu þessarar læknisrannsóknar á Neyðarmóttöku.

Á þriðjudeginum 28. febrúar 2017 leggur hún fram kæru. Dómur Héraðsdóms Suðurlands féll 12. desember 2018 og Ríkissaksóknari skaut málinu til Landsréttar 2. janúar 2019. 

Í málinu var einnig lagt fram vottorð sálfræðings sem tók viðtöl við konuna bæði í síma og á stofu. Þar segir meðal annars: „Brotaþoli  hafi  verið  með  truflandi  áfallastreitueinkenni  fyrstu  vikurnar  en  sýnt mikið hugrekki við að takast á við þau einkenni sem hafi minnkað með tímanum. Segir að brotaþoli virðist hafa náð eðlilegum bata eftir meint kynferðisbrot. Þrátt fyrir það sé líklegt að hún þurfi áfram að takast á við  minningar  um  meint  brot  í  daglegu  lífi  og  aðrar  afleiðingar  þess. Ljóst þyki að atburðinn hafi haft víðtæk áhrif á líðan brotaþola.“

Í máli vitnis, sem var með þeim umrætt kvöld, kemur meðal annars fram að rætt hafi verið fjálglega um kynlíf. Maðurinn hafi meðal annars lýst því umræddan dag við eitt vitni hversu „getnaðarleg“ konan væri og að hún væri „kynþokkafyllsta kona sem hann hefði séð“. Vitnum ber ekki saman um hvort daður hafi átt sér stað á milli þeirra umrætt kvöld.

Eitt vitnið sem hitti konuna eftir meinta nauðgun lýsir því að hún hafi „nötrað og skolfið, grátið og verið í rosalegu áfalli“. Þetta vitni sem er vinkona konunnar þykir ekki trúverðugt því það „ber kala til ákærða“ eins og segir í dómnum. 

Eftir að meint nauðgun átti sér stað í hlöðunni lýsir konan því að maðurinn hafi sagt við sig: „Þú lofar að vera ekki óvinur minn.“ 

Málið dæmdu Landsréttardómararnir: Davíð Þór Björgvinsson, Jóhannes Sigurðsson og Þorgeir Ingi Njálsson.

mbl.is