Áfram varað við skriðuföllum og vatnavöxtum

Búast við áframhaldandi vatnavöxtum og auknum líkum á skriðuföllum á …
Búast við áframhaldandi vatnavöxtum og auknum líkum á skriðuföllum á vesturhelmingi landsins. Á myndinni má sjá vatn flæða yfir veg í Langavatnsdal í fyrradag. Ljósmynd/Slysavarnafélagið Landsbjörg

Veðurstofa Íslands varar áfram við vatnavöxtum og auknum líkum á skriðuföllum á vesturhelmingi landsins þar sem mikil úrkoma hefur verið síðastliðna daga. 

Rennsli í ám og lækjum hefur aukist mjög og var Vatnsdalsvegur í Austur-Húnavatnssýslu lokaður um tíma í gærmorgun eftir að skriða féll á veginn í kjölfar vatnavaxta. 

Umfang vatnavaxtanna má sjá á ratsjármynd sem birt var í Facebook-hópnum Eldfjallafræði og náttúruvárhópur Háskóla Íslands. Myndin var tekin í gærmorgun og á henni sést yfirlit yfir umfang vatnavaxtanna í Borgarfirði. Á það er þó bent að vatnavextirnir höfðu ekki náð hámarki þegar myndin var tekin, en samanburður við eldri myndir gefi til kynna talsverð flóð. 

Í dag dregur úr úrkomunni og stefnir í suðaustlæga átt á landinu, strekking á Suður- og Suðvesturlandi, en annars hægari. Áfram verður einhver rigning um landið vestanvert, en dregur þó verulega úr henni frá því sem var í gær, að því er segir í hugleiðingum veðurfræðings. 

Sunnanlands verður skýjað og smásúld, en líkur eru á að sjáist til sólar á Norðausturlandi. Spáð er mildu veðri með hita upp í 17 stig á Suður- og Austurlandi. Á morgun hlýnar annars staðar og jafnvel upp undir 20 stig á Norðurlandi. 

Á morgun er áfram spáð einhverri vætu um landið á Suður- og Vesturlandi, einkum þó á Suðausturlandi þar sem gætu orðið hellidembur á einhverjum tímapunkti en þó ekkert til að hafa áhyggjur af.

Vegfarendur er bent á að fylgjast með tilkynningum um veður og mögulega lokaðar leiðir á vef Vegagerðarinnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert