Efling segir ásakanir starfsmanna og lögmanns þeirra tilhæfulausar

Viðar Þorsteinsson, framkvæmdastjóri Eflingar.
Viðar Þorsteinsson, framkvæmdastjóri Eflingar. mbl.is/​Hari

Ásakanir Láru V. Júlíusdóttur lögmanns og umbjóðenda hennar í garð Eflingar í fjölmiðlum eru ekki nýjar af nálinni. Með þeim er verið að reyna þvinga Eflingu til að gera óeðlilega samninga við fyrrverandi starfsmenn sem eru langt umfram réttindi samkvæmt ráðningar- og kjarasamningum.

Þetta segir Viðar Þorsteinsson, framkvæmdarstjóri Eflingar, í yfirlýsingu sem birtist á vef stéttarfélagsins í kjölfar fréttaflutnings Stöðvar 2 í gærkvöldi.

„Eina tæka skýringin á því hvers vegna málin eru sí og æ rekin í fjölmiðlum er að lagalegan grunn skortir fyrir umræddum kröfum,“ er einnig haft eftir Viðari í yfirlýsingunni.

Fjórir starfsmenn Eflingar leitað til sama lögmanns

Í kvöldfréttum Stöðvar 2 í gær kom fram að tveir fyrrverandi starfsmenn sem sagt var upp fyrirvaralaust hjá Eflingu telji að brotið hafi verið á réttindum þeirra og þeir hafi því leitað til lögmannsins Láru V. Júlíusdóttur.

Þá telja tveir starfsmenn sem fóru í veikindaleyfi síðasta haust, fjármálastjóri og bókari, einnig að brotið hafi verið á réttindum þeirra og hafa sömuleiðis leitað til Láru. Þær sögðust síðasta haust hafa hrökklast úr starfi vegna framkomu nýrrar forystu félagsins og vilja að samið verði um starfslok við þær.

Lára segir að ekki hafi verið farið að reglum Eflingar við uppsögn starfsmannanna. „Það er ekki alveg það sama sem fólk predikar og hvað fólk iðkar og því miður virðast þau sjónarmið sem verið er að ræða um að skorti á hjá öðrum atvinnurekendum ekkert síður eiga við á þessum stað, því miður,“ sagði hún í viðtali í gærkvöldi.

Lára V. Júlíusdóttir lögmaður.
Lára V. Júlíusdóttir lögmaður. Mynd/mbl.is

Samlíkingin bæði langsótt og ósmekkleg

Efling vísar þessum ásökunum á bug í áðurnefndri yfirlýsingu sem birtist á vefsvæði stéttarfélagsins í morgun. Þar segir að öll réttindi starfsmanna Eflingar sem varin eru í ráðningarsamningum, kjarasamningum og lögum hafi verið virt í einu og öllu. „Á það bæði við um fyrrverandi starfsmenn sem og núverandi starfsmenn í veikindaleyfi. Ásakanir um annað eru tilhæfulausar,“ segir þar.

Þá segir þar einnig að kröfum frá fyrrverandi stjórnendum Eflingar þar sem farið var fram á digra og framlengda starfslokasamninga hafi verið hafnað enda eigi þær sé enga stoð. „Efling telur samlíkingu þeirra mála við brotastarfsemi gegn láglaunafólki á vinnumarkaði bæði langsótta og ósmekklega.“

Efling kannast hvorki við að starfsmanni hafi verið sagt upp fyrirvaralaust né að sviðsstjóri hafi látið af störfum í tengslum við skipulagsbreytingar eins og kom fram í máli Láru í fréttum í gær. „Efling lýsir furðu á að rangfærslur varðandi mál skrifstofu Eflingar eigi svo greiða leið inn í fréttaflutning Stöðvar 2.“

Yfirlýsing Eflingar í heild sinni:

„Vegna fréttaflutnings Stöðvar 2 og á Visir.is þann 20. september 2019 vill Efling – stéttarfélag koma eftirfarandi á framfæri:

Öll réttindi starfsmanna Eflingar sem varin eru í ráðningarsamningum, kjarasamningum og lögum hafa verið virt í einu og öllu. Á það bæði við um fyrrum starfsmenn sem og núverandi starfsmenn í veikindaleyfi. Ásakanir um annað eru tilhæfulausar. Reglulegar endurtekningar í fjölmiðlum breyta engu þar um.

Kröfum frá fyrrum stjórnendum Eflingar þar sem farið er fram á digra og framlengda starfslokasamninga hefur verið hafnað enda eiga þær sér ekki stoð. Efling telur samlíkingu þeirra mála við brotastarfsemi gegn láglaunafólki á vinnumarkaði bæði langsótta og ósmekklega.

Um skipulagsbreytingar sem kynntar voru starfsfólki Eflingar þann 30. ágúst síðastliðinn má lesa í frétt á heimasíðu félagsins. Efling kannast hvorki við að sviðsstjóri hafi látið af störfum í tengslum við skipulagsbreytingar né að starfsmanni hafi verið sagt upp fyrirvaralaust. Efling lýsir furðu á að rangfærslur varðandi mál skrifstofu Eflingar eigi svo greiða leið inn í fréttaflutning Stöðvar 2.

Viðar Þorsteinsson framkvæmdastjóri Eflingar sagði: „Þessar ásakanir eru ekki nýjar af nálinni. Lára V. Júlíusdóttir og umbjóðendur hennar hafa ásakað Eflingu í fjölmiðlum, á fundum með forvígismönnum verkalýðshreyfingarinnar og með tölvupóstsendingum á hina og þessa aðila svo mánuðum skiptir. Með þessu er verið að reyna að þvinga Eflingu til að gera óeðlilega samninga sem eru langt umfram réttindi samkvæmt ráðningarsamningi og kjarasamningi. Eina tæka skýringin á því hvers vegna málin eru sí og æ rekin í fjölmiðlum er að lagalegan grunn skortir fyrir umræddum kröfum.““

mbl.is