Gekk fram á lík hjólreiðamanns á Sprengisandsleið

Ekki er talið að neitt saknæmt hafi átt sér stað.
Ekki er talið að neitt saknæmt hafi átt sér stað. Mynd/mbl.is

Lögreglumaður á frívakt gekk fram á lík erlends hjólreiðamanns á Sprengisandsleiðinni norðan Vatnsfells í gærdag. Þetta staðfestir Oddur Árnason, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Suðurlandi, í samtali við mbl.is.

„Ég get staðfest að lík manns hafi fundist, að málið sé til rannsóknar og að ekki sé grunur um að neitt saknæmt hafi átt sér stað,“ segir Oddur.

Lögreglan veit hver sá látni er og hefur allar upplýsingar um hann. Unnið er að því að ná sambandi við aðstandendur hans í samráði við ræðismann upprunalands hans en það hefur ekki tekist enn þá.

Krufning fer fram á þriðjudag og frekari upplýsinga er ekki að vænta að sinni.Sprengisandsleið. Mynd úr safni.
Sprengisandsleið. Mynd úr safni. Mynd/mbl.is
mbl.is