Orlando á svið Borgarleikhússins

„Hér eru á ferð gríðarlega áhugaverðar hugleiðingar um skáldskap, tímann, …
„Hér eru á ferð gríðarlega áhugaverðar hugleiðingar um skáldskap, tímann, náttúruna, mannlegt eðli, ást og kynferði,“ segir Kristín Eysteinsdóttir leikhússtjóri í Borgarleikhúsinu um Orlando eftir Woolf. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Okkur hefur lengi langað til að sviðsetja verk eftir Virginiu Woolf sem var svona langt á undan sinni samtíð,“ segir Kristín Eysteinsdóttir borgarleikhússtjóri, en haustið 2020 verður ný leikgerð á sjöttu skáldsögu Woolf, Orlando – ævisaga, sem út kom í Bretlandi árið 1928 og í íslenskri þýðingu Soffíu Auðar Birgisdóttur árið 2017, sett upp á Nýja sviði Borgarleikhússins.

„Woolf er einn fremsti rithöfundur 20. aldar og brautryðjandi á sviði módernískra bókmennta. Skáldsögur hennar bera vitni um nútímalega og róttæka lífsafstöðu. Woolf var áhrifavaldur í kvennasögu, skrifaði um kynferði og stöðu kvenna innan bókmenntaheimsins,“ segir Kristín og tekur fram að spurningar og vangaveltur höfundar um kyn, sjálfskoðun og sannleika kallist sterklega á við samtímann.

Áhugaverðar hugleiðingar um mannlegt eðli, ást og kynferði
„Hér eru á ferð gríðarlega áhugaverðar hugleiðingar um skáldskap, tímann, náttúruna, mannlegt eðli, ást og kynferði,“ segir Kristín og bætir við: „Við erum nýbúin að fara í mikla vinnu um framtíðarsýn Borgarleikhússins. Sem vakandi leikhús viljum við bregðast við og vera í samtali við málefni sem eru í deiglunni,“ segir Kristín og bendir á að Orlando hafi í auknum mæli ratað á svið erlendis. Sem dæmi má nefna að fyrr í mánuðinum frumsýndi Schaubühne í Berlín verkið í leikstjórn Katie Mitchell og leikgerð Alice Birch.

Enski rithöfundurinn Virginia Woolf fæddist 25. janúar 1882 og lést …
Enski rithöfundurinn Virginia Woolf fæddist 25. janúar 1882 og lést 28. mars 1941.

„Það eru til ótal leikgerðir á þessari skáldsögu, en við viljum vinna okkar eigin leikgerð,“ segir Kristín og tekur fram að enn sé of snemmt að nefna mögulegan leikstjóra eða hverjir komi að leikgerðarvinnunni. Í ljósi þess að skáldsagan Orlando spannar næstum fjögur hundruð ár af lífi aðalpersónunnar, sem eldist samt aðeins um 36 ár í gegnum verkið og breytir um kyn á leiðinni, liggur beint við að spyrja hvort leikhúsið hafi augastað á tilteknum leikara eða leikkonu fyrir hlutverkið eða hvort allur leikhópurinn muni skipta með sér hlutverkinu.

„Það verður sennilega leikkona sem fer með hlutverkið,“ segir Kristín og rifjar upp að Tilda Swinton, sem fór með hlutverk Orlando í kvikmyndinni frá 1992 sem Sally Potter leikstýrði, hafi verið fullkomin í hlutverkið. Að sögn Kristínar er hugmyndin sú að leika verkið í mikilli nálægð á Nýja sviðinu og vera aðeins með fimm leikara í uppfærslunni. Einnig sé leikhúsið að skoða möguleikann á því að sami leikari leiki alla elskhuga Orlando, enda spennandi verkefni fyrir einn og sama leikara.

„Orlando dregur upp óhefðbundna og lausbeislaða lýsingu á manneskju. Bókin er þroskasaga sálar, uppvaxtarsaga ungs manns sem breytist í konu, andleg skoðun á mannsálinni þar sem ekki skiptir máli hvað við erum heldur hver við erum. Mannssálin getur ferðast óháð tíma og manneskja er einfaldlega sú sem hún er. Orlando er við öll,“ segir Kristín að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert