Star Trek opnaði dyr

John de Lancie segir það hafa verið ævintýri að leika …
John de Lancie segir það hafa verið ævintýri að leika Q í Star Trek en ferill hans fór á flug eftir það hlutverk. Í dag vill hann ferðast um og ræða trú og efahyggju við ungt fólk í Bandaríkjunum og víðar. mbl.is/Ásdís

Hann lék hinn guðlega almáttuga Q í Star Trek forðum daga eins og margir muna en er að sjálfsögðu jafn dauðlegur og við hin. John de Lancie er ekki bara leikari heldur efahyggjumaður, húmanisti, framleiðandi, höfundur, fyrirlesari, faðir og siglingamaður en hann kom hingað í vikunni í boði Siðmenntar og Nexus til þess að ræða um trúmál og efahyggju.

Þróunarkenningin uppspuni

John ferðast gjarnan um Bandaríkin og víðar en hann vill hafa áhrif á samfélag sitt sem hann telur gegnsýrt af trú á kostnað vísinda. Hann telur trú geta alið á fáfræði og ábyrgðarleysi einstaklinga sem trúa í blindni, en víða í Bandaríkjunum ríkir til dæmis enn í dag sú skoðun að þróunarkenningin sé uppspuni.
„Siðmennt bauð mér að koma til Íslands og ég var spurður hvað ég vildi tala um. Ég get auðvitað ekki talað um hvað er að gerast hér á landi því ég þekki það ekki en ég get talað um hvernig málum er háttað í Bandaríkjunum varðandi trúmál. Kannski verður tal mitt víti til varnaðar,“ segir hann.

Finnst þér þú á einhvern hátt gera heiminn örlítið betri með þessum tölum þínum?
„Já, mér finnst það eða að minnsta kosti vona ég það. Ég er opinberlega efahyggjumaður og hitti oft fólk sem segir ég segja það sem það hugsi. Þannig get ég verið eins konar regnhlíf fyrir þau að skýla sér undir. Og því stærri sem þessi regnhlíf verður því betra,“ segir hann.
Blaðamaður nefnir að trú verði ekki afmáð úr heiminum og John tekur undir það.
„Ég er ekki að reyna að ráðast gegn trú, nema fólk komi fram með hana á opinberum vettvangi. Ef fólk ætlar að snúa aftur til sextándu aldar er voðinn vís. En fólk má trúa því sem það vill í sínu prívat lífi.“

Þetta er risastórt

Við tökum snarpa beygju í viðtalinu því ekki er hægt annað en að spyrja John út í hlutverk sitt í Star Trek.
„Ég ætlaði aldrei að leika í Star Trek. Ég átti að koma í prufu en mætti ekki því ég var að leika í leikriti en þeir hringdu aftur og vildu fá mig. Ég sló til og eftir nokkra daga á settinu kom Gene Roddenberry og sagði við mig: „þú hefur ekki hugmynd um hvað þú ert búinn að koma þér út í!“ Ég spurði hann hvað hann ætti við og hann svaraði: „Þú átt eftir að komast að því.“ Þetta var á þeim tíma afar mikilvægt hlutverk fyrir mig á mínum ferli og ég lagði allt í það,“ segir hann og grunaði ekki þessar miklu vinsældir þáttarins sem voru handan við hornið.

John de Lancie lék á móti Patrick Stewart í Star …
John de Lancie lék á móti Patrick Stewart í Star Trek en Stewart lék Jean-Luc Picard, sem stjórnaði geimskipinu USS Enterprise.

John kom inn í þættina þegar framhaldsþættirnir, Star Trek: The Next Generation, voru gerðir en lék einnig í Star Trek: Deep Space Nine og Star Trek: Voyager. Vinsældir hans sem persónan Q voru miklar, þrátt fyrir að hann léki í raun ekki mikið.
„Ég lék aðeins í níu þáttum á tíu árum, eða um einum þætti á ári. Þannig að persónan mín varð úr hófi vinsæl miðað við hvað ég var í raun lítið á skjánum.“
John segir þættina hafa haft gríðarleg áhrif á að auka áhuga á vísindum. „Algjörlega. Þátturinn hafði ótrúleg áhrif á fólk, sérstaklega á vísindafólk. Og það er enn verið að gera nýja þætti, ráðstefnur eru haldnar og fólk fer á sérstök Star Trek-skemmtiferðaskip. Þetta er risastórt.“
Það hlýtur að vera skemmtilegt að vera hluti af einhverju svona stóru?
„Já, algjörlega. Og það hefur veitt mér svo mörg tækifæri; opnað dyr. Ferill minn hófst þarna fyrir alvöru og fór á flug. Í mínum bransa verður maður að vera þekktur fyrir eitthvað. Oftast er það þannig með þætti að þeir hafa kannski í mesta lagi tólf ára líftíma, en þessi þáttur bara heldur áfram. Og áfram og áfram og áfram.“

Dulúð og orka á Íslandi

Eftir að hafa leikið hinn almáttuga Q fékk John hlutverk í ýmsum sjónvarpsþáttum, eins og Breaking Bad svo eitthvað sé nefnt. John hefur leikið í ótal bíómyndum en hann tekur fram að hann hafi líka leikið mjög mikið á sviði. Einnig hefur hann tekið þátt í ýmsum uppfærslum af óperum og unnið náið með sinfóníuhljómsveitum. „Og ekki gleyma siglingum!“ segir John sem elskar að sigla.

Ekki er hægt að sleppa þessum geðþekka leikara og húmanista án þess að spyrja hvað honum finnist um Ísland.
„Stórkostlegt! Við fórum í dagsferð í gær út á land. Og þegar við komum í gær akandi aftur til Reykjavíkur sagði ég að mér fyndist ég vera að koma úr forneskjulegum heimi. Það er einhver orka og dulúð hér. Við konan mín ætlum svo hringinn í kringum landið. Okkur var sagt að það yrði tæplega sólríkt en ég sagði bara að því klikkaðra sem veðrið yrði, því betra,“ segir hann og hlær.

Siðmennt bauð John de Lancie til landsins og talaði hann …
Siðmennt bauð John de Lancie til landsins og talaði hann við íslenska áhorfendur um efahyggjumál en John segist alltaf hafa viljað koma til Íslands. mbl/Hari


Viðtal við John de Lancie er í heild í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins um helgina. 



Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert