Brjóta blað í íslenskri hjólasögu

Ágústa Edda Björnsdóttir og Rúnar Örn Ágústsson taka þátt fyrir …
Ágústa Edda Björnsdóttir og Rúnar Örn Ágústsson taka þátt fyrir hönd Íslands á heimsmeistaramótinu í götuhjólreiðum sem fram fer í Jórvíkurskíri á Bretlandi í næstu viku. mbl.is/​Hari

Heimsmeistaramótið í götuhjólreiðum hefst núna í dag í York-skíri á Bretlandi. Að venju mætir flest af besta götuhjólreiðafólki heims til leiks, en dagskrá mótsins stendur frá sunnudegi til sunnudags. Keppnin hefur sjaldan vakið mikla athygli á Íslandi, en það gæti eitthvað farið að breytast, því í ár verða keppendur frá Íslandi í fyrsta skipti á stóra sviðinu. Það eru þau Rúnar Örn Ágústsson sem keppir í tímaþraut og Ágústa Edda Björnsdóttir sem keppir í bæði tímaþraut og götuhjólreiðum.

Heimsmeistaramótið skiptist í þrjá flokka sem eru; tímaþraut, götuhjólreiðar og hjólreiðar fatlaðra. Undir hverjum flokki eru svo aldursflokkar, en það eru unglingaflokkar, U23 og svo úrvalsflokkur (elite). Bæði Rúnar og Ágústa keppa í úrvalsflokki.

Ísland ekki hátt skrifað, en fyrstu skrefin tekin

Ísland hefur hingað til ekki verið ýkja hátt skrifað í hjólreiðaheiminum, en fær þrátt fyrir það eitt sæti í bæði karla- og kvennaflokki í tímaþraut. Þau lönd sem eiga sterkustu hjólara heims fá fleiri sæti. Í kvennaflokki fékk Ísland svo eitt sæti í götuhjólreiðum, en í karlaflokki hafa kröfur verið auknar vegna fjölda þátttökulanda þannig að ekkert sæti var í boði fyrir Ísland. Til að fjölga sætum þyrfti Ísland að bæta við sig svokölluðum UCI-stigum (alþjóðasamband hjólreiða), en það fæst aðeins með því að keppendur taki þátt í mótum sem bjóða upp á slík stig. Ekkert slíkt götuhjólamót er til að mynda haldið hér á landi, annað en Íslandsmótið. Sterkustu löndin í götuhjólreiðum fá hins vegar allt að átta hjólara á heimsmeistaramótið og geta þar með myndað sterkt lið, líkt og í hefðbundnum mótum ársins.

Slíkt fyrirkomulag getur merkilegt nokk skapað smá vandamál. Götuhjólreiðar eru nefnilega liðsíþrótt, þótt það sé aðeins einn sem sigrar. Þannig er besta hjólreiðafólkið alla jafna leiðtogar (e. leader) í sínu keppnisliði og aðrir liðsmenn aðstoða leiðtogann við að reyna að vinna keppnina. Þegar allir bestu keppendurnir mæta hins vegar í landsliðið þurfa þessir leiðtogar að vinna að því að einn þeirra vinni. Slíkt getur oft verið erfitt, enda ekki allir til í að vinna fyrir leiðtoga annarra keppnisliða sem þeir alla jafna eru í samkeppni við. Alla jafna er þó mun betra að vera í fjölmennum landsliðum en fámennum og oft vinna menn saman þrátt fyrir keppnisskapið.

Annað af tveimur stærstu mótum ársins

Það má segja að heimsmeistaramótið sé í raun annar af tveimur stærstu hjólaviðburðum ársins ásamt fjöldagakeppninni Tour de France sem flestir ættu að kannast við. Þá veitir mótið sigurvegaranum í hverri grein þann rétt að klæðast regnbogatreyju í öllum keppnum í þeirri hjólagrein fram að næsta heimsmeistaramóti. Telst slíkt mikill heiður í hjólreiðum.

Rúnar segir í samtali við mbl.is að heimsmeistaramótið hafi í raun sömu þýðingu fyrir keppendur og að taka þátt í Tour de France eða á Ólympíuleikunum. „Fólk á Íslandi gerir sér ekki grein fyrir hvað þetta er stórt mót,“ segir hann.

Heimsmeistaramótið hefur verið „gulrótin allt tímabilið“ 

Rúnar segist sjálfur alltaf hafa viljað taka þátt í þessu móti, ekki síst til að fá að keppa fyrir hönd Íslands. Rúnar hefur undanfarin ár verið einn þeirra bestu í tímaþraut hér á landi í karlaflokki, en hann er núverandi bikarmeistari, var Íslandsmeistari í fyrra og í öðru sæti bæði árið á undan og á þessu ári.

Hann segist hafa frá því í byrjun ársins stefnt að því að keppa á mótinu, en það hafi ekki orðið ljóst fyrr en í lok júlí að hann myndi fara. „Síðan þá hefur fókusinn verið 110% á þessu verkefni,“ segir hann og bætir við að fram að því hafi hann einbeitt sér að íslensku mótunum. „Gulrótin allt tímabilið var samt að geta mögulega farið á þetta mót.“

Rúnar Örn Ágústsson hefur verið á meðal fremstu tímaþrautarmönnum hér …
Rúnar Örn Ágústsson hefur verið á meðal fremstu tímaþrautarmönnum hér á landi undanfarin ár. mbl.is/​Hari

Tímaþraut hefur undanfarin ár verið aðalgrein Rúnars, en hann er einnig ofarlega á lista yfir helstu þríþrautarkappa landsins og átti meðal annars um stund Íslandsmet í járnkarli. Þar þarf einmitt að hjóla langar vegalengdir einn og óstuddur, líkt og í tímaþrautinni.

Rúllandi brekkur sem passa vel

Rúnar segir að sér lítist vel á brautina miðað við það sem hann hefur náð að sjá og lesa um hana. Þrátt fyrir að talsvert sé um brekkur í henni eigi þær að vera frekar rúllandi (ekki of brattar) og hraðar þar sem hægt sé að halda aflinu nokkuð jöfnu, í stað þess að um sé að ræða mjög bratta kafla þar sem þurfi að auka aflið í stutta stund. „Það hentar mér betur að halda jöfnu afli allan tímann,“ segir Rúnar og bætir við að þessi braut ætti til dæmis að henta honum betur en Krýsuvík-Kleifarvatnsleiðin þar sem brekkurnar séu líklega brattari, en þar fór Íslandsmótið fram í fyrra.

Eins og fyrr segir er Ísland ekkert of framarlega í hjólreiðum á heimsvísu, en það dregur ekki úr Rúnari að setja sér markmið. Hann bendir á að um 90% þeirra sem keppi séu í svokölluðum heimstúrsliðum (e. world tour teams). Það séu allt atvinnumenn og erfitt sé að bera sig saman við þá. Hins vegar sé hans markmið að vera efstur af þeim um það bil 10% sem ekki tilheyri þeim flokki keppenda. Það séu hins vegar keppendur sem séu jafnvel atvinnumenn eða að hluta til atvinnumenn og keppi með svokölluðum álfuliðum (e. continental teams) og séu einnig gríðarlega sterkir.

Tvöfaldur Íslandsmeistari 

Þegar mbl.is náði tali af Ágústu segist hún vera spennt en einnig smá stressuð líka. „Sem er eðlilegt og eins og það á að vera fyrir svona stóra keppni,“ segir hún. Upphaflega fór hún að horfa á þetta mót síðasta haust, en svo flosnaði aðeins upp úr landsliðsmálunum og segir Ágústa að hún hafi eiginlega verið búin að gefa þennan draum upp á bátinn. „En eftir Íslandsmótin kom þetta aftur inn á planið,“ segir hún, en Ágústa er bæði Íslandsmeistari í tímaþraut og í götuhjólreiðum og var Íslandsmeistari í götuhjólreiðum í fyrra og í öðru sæti í tímaþraut það ár.

Hún segir að eftir að Íslandsmótin og þegar tímabilið hér heima kláraðist hafi hún því haldið áfram sama æfingaálagi og ekki tekið neina pásu eins og venjan er. „Svo hef ég gefið í síðustu vikurnar,“ segir hún og vísar sérstaklega til þess að hún þurfi að vera í sínu besta formi þar sem hún taki þátt í bæði tímaþraut og götuhjólreiðum.

Ágústa Edda Björnsdóttir er Íslandsmeistari bæði í tímaþraut og götuhjólreiðum …
Ágústa Edda Björnsdóttir er Íslandsmeistari bæði í tímaþraut og götuhjólreiðum og mun keppa í báðum greinum í vikunni. mbl.is/​Hari

Götuhjólakeppnin gæti reynst ný áskorun

Spurð hver sé hennar aðalgrein og hvort hún leggi meiri áherslu á eina grein umfram aðra segir Ágústa að hún geti í raun ekki sagt hver aðalgreinin hennar sé. „Ég átta mig ekki á því í alþjóðlegum samanburði hvor er mín aðalgrein,“ segir hún.

Miðað við að tímaþrautin sé einstaklingsgrein, en götuhjólreiðarnar liðsgrein, segir Ágústa að líklegra sé að tímaþrautin verði hennar sterkari grein. „Ég er ekki vön taktískum peloton-pælingum [peloton er hópur hjólreiðamanna] og að takast á við lið sem vinna saman,“ segir hún, en hér á landi er liðshugmyndin í keppnum nokkuð óþróuð ennþá.

Ágústa segir að hennar aðalmarkmið sé að klára götuhjólreiðakeppnina, en ef keppandi lendir of aftarlega getur hann dottið úr keppni. „Mig langar að vera með allan tímann og klára keppnina,“ segir hún.  

Talsverð hækkun sem spilar á styrkleika Ágústu

Bæði götuhjóla- og tímaþrautarkeppnirnar verða í nokkuð hæðóttu landslagi með talsverðum fjölda af brekkum. Ágústa hefur á sér orð fyrir að vera nokkuð sterk í slíkum aðstæðum á mótum hér á landi. Spurð hvernig henni lítist á brautirnar segir hún að brautin virðist henta sér ágætlega. Í tímatökunni verður um 500 metra hækkun á 30 kílómetra vegalengd, en það er talsverð hækkun á svo stuttri leið. Ágústa segir að það eina sem gæti truflað hana þar sé að hér á landi sé hún óvön því að klifra mikið á tímaþrautarhjóli þar sem flestar tímatökubrautir séu nokkuð flatar. Hins vegar ætti götuhjólabrautin að passa henni vel.

„Ég vona að þetta verði bara byrjunin“

Eins og fyrr segir er þetta í fyrsta skiptið sem Íslendingar fara á heimsmeistaramótið í götuhjólreiðum, þótt áður hafi verið farið á Evrópumót og á heimsmeistaramót í fjallahjólreiðum. Rúnar segist hafa trú á því að þessum skiptunum muni fjölga og fara þurfi að fordæmi annarra íþróttagreina hér á landi sem hafi byggt upp sterkan grunn til að taka þátt í stórmótum eða undankeppnum fyrir stórmót og á endanum hafi það skilað sér. „Það er fullt af íþróttum sem við vorum ekkert alltaf góð í. Körfuboltinn er gott dæmi. Landsliðið var sent í hverja undankeppnina á fætur annarri, tapaði flestum leikjum. En nú er komin ný kynslóð og við erum farin að komast inn á stórmót,“ segir hann og bætir við að vonandi séu þau Ágústa með þessu að skapa fordæmi fyrir þá sem eru yngri. Þá segir hann keppnir sem þessa einnig frábært tækifæri fyrir þá sem yngri séu, þar sem atvinnumannaliðin fylgist vel með yngri flokkunum og sæki þangað stundum hæfileikarík ungstirni. Ágústa tekur undir þetta með Rúnari. „Ég vona að þetta verði bara byrjunin,“ segir hún.

  • Ágústa mun hefja leik á þriðjudaginn, en tímaþrautin hefst kl 13:40 og stendur í rúmlega 2 klst.
  • Rúnar keppir svo á miðvikudaginn, en tímaþraut karla hefst kl. 12:10 og stendur í tæplega fimm klst.
  • Ágústa mun svo mæta til leiks í götuhjólreiðum laugardaginn 28. september og hefst keppnin kl 10:40.

Frekari upplýsingar um heimsmeistaramótið má finna á heimasíðu keppninnar, en hægt verður að fylgjast með keppninni á Eurosport, auk þess sem hjólaverslunin Kría ætlar að sýna frá henni þegar Rúnar og Ágústa keppa. 

Ingvar keppir á heimsmeistaramótinu í fjallahjólreiðum í dag

Þess má geta að núna í dag tekur Ingvar Ómarsson þátt í heimsmeistaramótinu í maraþonfjallahjólreiðum, en hann hefur nokkrum sinnum áður tekið þátt í heimsmeistaramótum í bæði ólympískum fjallahjólreiðum og maraþonfjallahjólreiðum. Fer keppnin fram í Sviss og hefst klukkan 10 að staðartíma, eða átta um morgun að íslenskum tíma.

Ingvar Ómarsson hefur keppni á heimsmeistaramótinu í maraþon fjallahjólreiðum í …
Ingvar Ómarsson hefur keppni á heimsmeistaramótinu í maraþon fjallahjólreiðum í Sviss klukkan 8 núna í morgunsárið. mbl.is/Eggert

Hægt er að fylgjast með Ingvari í beinni útsendingu á eftirfarandi facebooksíðu, en Ingvar sagði frá undirbúningi sínum í ítarlegu máli í fyrradag og má lesa um það hér að neðan.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert