Brúðargjöfum stolið úr ferðatösku

Frá flugstöð Leifs Eiríkssonar.
Frá flugstöð Leifs Eiríkssonar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Brúðargjafir, spariföt og iPad eru á meðal muna sem stolið var úr ferðatösku sem hafnaði fyrir mistök í flugi til München í stað Keflavíkur í vikunni. Taskan var þar í nokkra daga áður en eigandinn fékk hana aftur í hendur.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglunni á Suðurnesjum. Ekki er vitað hvar þjófnaðurinn átti sér stað en ljóst er að valið var vandlega úr töskunni áður en henni var skilað. 

Tvö önnur atvik komu upp á flugstöðinni í vikunni. Lenda þurfti flugvél frá American Airlines  vegna veikinda farþega. Vélin var í áætlunarflugi frá Chicago til Feneyja á Ítalíu. Læknir var um borð og leit hann til með sjúklingnum þar til lent var í Keflavík. Farþeginn var fluttur með sjúkrabifreið á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja til aðhlynningar.

Þá var lögreglu í flugstöðvardeild lögreglunnar á Suðurnesjum tilkynnt um einstakling sem dottið hefði á andlitið í brottfararsal. Hafði viðkomandi hrasað um ferðatösku og ekki náð að bera hendurnar fyrir sig. Farþeginn hlaut skrámur, en ekki alvarlegar, og hélt áfram för sinni eftir að hafa fengið aðhlynningu á staðnum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert