Kannabisefni vandlega falin í vélarrúmi bíls

Fíkniefnamálum hefur fjölgað gríðarlega í umdæmi lögreglunnar á Norðurlandi vestra …
Fíkniefnamálum hefur fjölgað gríðarlega í umdæmi lögreglunnar á Norðurlandi vestra og segir lögreglan það verulegt áhyggjuefni. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Tveir eru í haldi lögreglunnar á Sauðárkróki eftir að lögregla stöðvaði bifreið þeirra og lagði hald á tæplega 80 grömm af meintum kannabisefnum í söluumbúðum. Kókaín og kannabis mældust í þvagi ökumanns bifreiðarinnar. 

Fram kemur í facebookfærslu lögreglunnar á Norðurlandi vestra að efnin voru vandlega falin í vélarrúmi bifreiðarinnar og naut lögreglan aðstoðar fíkniefnahunds við leitina. 

Fíkniefnamálum hefur fjölgað gríðarlega í embættinu og segir lögreglan það verulegt áhyggjuefni. Í vikunni hafa alls sex ökumenn verið stöðvaðir í akstri undir áhrifum ávana- og fíkniefna og mál er varða vörslu ávana- og fíkniefna voru fimm talsins.

Lögreglan lagði einnig hald á meint kannabisefni ætluð til sölu og vógu þau ríflega 60 grömm. Þau efni komu til vegna nokkurra húsleita og leitar í ökutækjum.

Lögreglan minnir enn og aftur á fíkniefnasímann 800-5005, sem er gjaldfrjálst símanúmer, þar sem unnt er að koma á framfæri ábendingum um fíkniefnamál.




mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert