Ósammála um forsendur bótakröfu Guðjóns

Frá endurupptöku Guðmundar- og Geirfinnsmálsins við Hæstarétt.
Frá endurupptöku Guðmundar- og Geirfinnsmálsins við Hæstarétt. mbl.is/​Hari

Andri Árnason, settur ríkislögmaður í málum er varða bótakröfur vegna Guðmundar- og Geirfinnsmálsins, segir í samtali við mbl.is að forsendur bótakröfu Guðjóns Skarphéðinssonar hafi ekki verið réttar og að það komi sér á óvart að Ragnar Aðalsteinsson, lögmaður Guðjóns, hafi „ekki verið búinn undir þær varnir sem fram koma í greinargerð setts ríkislögmanns“.

„Þau atriði sem þar koma fram hafi mátt vera fyrirsjáanleg miðað við málatilbúnað og kröfugerð stefnanda í málinu,“ segir Andri.

Ragnar Aðalsteinsson, lögmaður Guðjóns, sagði í samtali við mbl.is á föstudag að afstaða ríkisins til bótakröfu Guðjóns hefði komið sér á óvart og fullyrti hann að hún væri ekki í samræmi við þá afstöðu sem ríkisstjórnin hefði gefið til kynna þegar hún viðurkenndi að brotið hefði verið á Guðjóni í meðferð Guðmundar- og Geirfinnsmálsins.

Krafan á grundvelli einangrunar

„Varðandi bótakröfuna sem slíka þá hafi það til dæmis verið ljóst að Guðjón var vistaður megnið af tímanum, eða nánast fjögur ár af fimm, á Kvíabryggju, en ekki í einangrunarfangelsi, sem stefnandi miðar fjárhæð kröfugerðar sinnar við. Við þessu þurfti auðvitað bregðast. Sjónarmið um að greinargerð ríkisins gangi of langt eiga því ekki rétt á sér,“ segir Andri.

Sáttanefnd forsætisráðuneytisins í Guðmundar- og Geirfinnsmálinu hætti störfum 1. júlí síðastliðinn í kjölfar þess að bótakrafa var lögð fram fyrir hönd Guðjóns. Krefst hann 1,3 milljarða króna fyrir ólöglega frelsissviptingu. Ragnar hefur meðal annars vísað til fyrri dóma er varða ólögmætt gæsluvarðhald. Þessari kröfu Guðjóns hefur ríkið hafnað.

Taldi sátt liggja fyrir í júní

Andri segir viðræður við þorra aðila sem tengjast Guðmundar- og Geirfinnsmálinu hafa staðið yfir um langt skeið. „Sáttanefndin, sem sett var á laggirnar, gat ekki leitt málið til lykta vegna þess hve háar fjárkröfur komu fram.“

„Settum ríkislögmanni var síðar falið að kanna hvort aðilar, sem um ræddi, væru tilbúnir til að lækka kröfur sínar og skapa þannig sáttagrundvöll, sem tæki til alls hópsins. Sú staða var uppi í júní síðastliðnum að ásættanleg niðurstaða virtist hafa fundist varðandi sanngirnisbætur,“ útskýrir Andri og segist hafa staðið í góðri trú um að gera mætti tillögu um lagasetningu þar að lútandi.

„Eftir á féll einn aðili frá þátttöku sinni og því ljóst að fara yrði aðra leið, og leita lausna gagnvart hverjum og einum, á þeim forsendum sem ræddar höfðu verið. Yfirlýst er að það boð um viðræður stendur áfram, þrátt fyrir málsókn eins aðila,“ bætir hann við.

mbl.is