Stutt í heimsmeistaratitilinn

Björgvin Karl Guðmundsson, afreksmaður í crossfit, segir trú og áætlun …
Björgvin Karl Guðmundsson, afreksmaður í crossfit, segir trú og áætlun þurfa að vera til staðar ætli hann sér titilinn hraustasti maður heims. mbl.is/Hari

Björgvin Karl Guðmundsson kom mörgum á óvart þegar hann tryggði sér þriðja sætið á heimsleikunum í crossfit árið 2015. Ári áður hafnaði hann í 26. sæti svo stökkið var stórt.

Björgvin segir marga hafa efast um að hann ætti þriðja sætið skilið eftir heimsleikana 2015. „Ég var svo ungur; tuttugu og tveggja ára. Fólki fannst frammistaðan á Evrópumótinu ekki endurspegla að ég ætti að lenda í þriðja sæti á heimsleikunum,“ segir Björgvin en hann lenti í öðru sæti á Evrópumótinu það árið.

„Ég held bara að undirbúningurinn hafi verið mjög góður,“ segir Björgvin en hann fór þá til útlanda í æfingabúðir fimm vikum fyrir leikana. „Þá kynntist ég almennilegri næringu. Ég setti alls konar hluti saman þetta ár, sem ég hafði aldrei pælt neitt í.“

„Fyrir fjórum árum gastu verið í vinnu og verið einn …
„Fyrir fjórum árum gastu verið í vinnu og verið einn af þeim bestu í heimi. Nú er þetta ekki svoleiðis. Þú þarft að vera „all-in“,“ segir Björgvin Karl um þróun crossfit-greinarinnar. Ljósmynd/Aðsend

Björgvin fór í eftirminnilegt viðtal eftir að hann vann eina greinina á leikunum 2015. Hún kallast Murph og er nefnd eftir hetju úr bandaríska sjóhernum en Bandaríkjamennirnir á leikunum voru ekki sáttir við að Íslendingur hefði unnið greinina. „Ég var spurður hvað þessi æfing þýddi fyrir mig. „Bara ekki neitt, hún þýðir ekkert fyrir mig sko,““ segir hann og uppsker hlátur frá blaðamanni. „Þeir hefðu viljað fá svona fimm mínútur af einhverri svaka ræðu um frelsi og eitthvað.“

Á næstu árum festi Björgvin sig í sessi sem einn sá besti í heimi í crossfit-greininni, lenti í áttunda sæti á heimsleikunum 2016 og fimmta sæti næstu tvö ár þar á eftir. 

Heimsmeistaratitillinn innan seilingar

Á heimsleikunum 2019, sem haldnir voru í Wisconsin í Bandaríkjunum í byrjun síðasta mánaðar, komst Björgvin aftur á pall; hafnaði í þriðja sæti. „Síðan árið 2015 er markmiðið búið að vera að komast aftur á pall og sýna að ég eigi heima þar. Það sem gerðist í ár er að ég sé hve stutt er í fyrsta og annað sætið,“ segir Björgvin en árin þrjú á undan hafði Mathew Fraser, sem sigraði í ár, unnið með yfirburðum. „Það getur verið svolítið niðurdrepandi að horfa á Fraser vinna með 400 stigum.“

Björgvin segir trú og áætlun þurfa að vera til staðar ætli hann sér titilinn hraustasti maður heims. „Ég get ekki bara setið hér og sagt: „Ég ætla að vera í fyrsta sæti.“ Hvernig ætlarðu að ná fyrsta sæti? Og af hverju, og hvernig sérðu að þú getir það? Ég þarf að ná því inn svo ég sé ekki bara að ljúga að sjálfum mér að ég ætli að ná fyrsta sæti.“

Björgvin Karl Guðmundsson er þriðji hraustasti maður í heimi. Hann …
Björgvin Karl Guðmundsson er þriðji hraustasti maður í heimi. Hann segir ekki langt á milli hans og þess hraustasta. Morgunblaðið/Hari

Í ár var Björgvin tæplega 100 stigum frá fyrsta sæti en munurinn niður í það fjórða var svipað mikill. Fyrsta sætið er því raunhæfur möguleiki. „Mér finnst þetta vera innan seilingar og mun klárlega gera allt sem ég get til að gera enn betur á næsta ári.“

Mathew Fraser hefur unnið heimsleikana síðustu fjögur árin og segist Björgvin hafa fengið að kynnast honum undanfarið ár. „Maður sér hversu mannlegur hann er. Hann er fáránlega góður en það er klárlega hægt að vinna hann.“

– Af hverju er Fraser svona góður?

„Ég held að honum finnist ekkert það gaman að æfa, hann bara þráir þetta svo geðveikt mikið og kannski meira en við hinir. Hann er mjög hæfileikaríkur og það fer engin aukaorka í hreyfingarnar. Hann getur því nýtt það sem hann hefur mjög vel.“ Björgvin segir Fraser sterkan lyftingamann og ekki hafi tekið mikið á fyrir hann að byggja upp þol og ná tökum á fimleikaæfingunum í crossfit-greininni.

Viðtalið við Björgvin Karl má finna í heild sinni í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert