„Ég var einmana og vildi fara aftur til baka“

Útlendingastofnun hefur tekið á móti umsóknum 770 barna, þar af …
Útlendingastofnun hefur tekið á móti umsóknum 770 barna, þar af yfir 70 fylgdarlausra barna, frá árinu 2016. Ljósmynd/Aðsend

„Ég var mjög þreytt, mér var kalt og ég var svöng,“ sagði stúlka sem lýsti upplifun sinni á komunni hingað til lands í leit að alþjóðlegri vernd í viðtali í tengslum við verkefnið Heima á vegum UNICEF á Íslandi.

Í verkefninu Heima skoðar UNICEF móttöku barna út frá sjónarhorni þeirra sjálfra og í samtölum við börn á aldrinum sjö til 21 árs, aðstandendur og aðra, kom fram að fyrstu sólarhringarnir eru börnunum erfiðir og þau upplifa meðal annars kulda, svengd og þreytu.

Útlendingastofnun hefur tekið á móti umsóknum 770 barna, þar af yfir 70 fylgdarlausra barna, frá árinu 2016, en í skýrslu rannsóknarstofnunar UNICEF frá 2018 kemur fram að brotalamir séu í móttöku barna í leit að alþjóðlegri vernd í öllum ríkjum Norðurlandanna. Í ársbyrjun 2019 ákváðu UNICEF á Íslandi og Grallaragerðin svo að leiða saman hesta sína í verkefninu Heima þar sem móttaka barnanna yrði skoðuð frá sjónarhorni barnanna sjálfra.

Alls tók 31 barn þátt, auk 12 foreldra og 40 starfsmanna sem vinna að móttöku þeirra. Í viðtölum við börnin lýstu þau því hvernig fyrstu sólarhringarnir á Íslandi eru þeim erfiðir, auk þess sem þau upplifa skort á upplýsingum um eigin stöðu þegar lengra líður á ferlið.

Þá lýstu þau bágbornum aðstæðum í búsetuúrræðum stjórnvalda og skorti á menntun, heilbrigðisþjónustu og tómstundum fyrstu mánuðina. „Ég var einmana og vildi fara aft­ur til baka,“ er haft eftir einu barnanna.

Í vinnustofum voru svo þróaðar átta lausnir við áskorunum barnanna, þar á meðal móttökuheimili fyrir fylgdarlaus börn, heilsugæsla fyrir alla, upplýsinga- og félagsmiðstöð, listasmiðja og útivistarnámskeið.

Afrakstur verkefnisins var kynntur fyrir félagsmálaráðherra í lok júní síðastliðnum og dómsmálaráðherra nú í ágúst. Í kjölfarið ákvað Hafnarfjarðarbær, í ljósi fyrirhugaðs samstarfs við UNICEF í tengslum við Barnvæn sveitarfélög, að þróa áfram tilraunaverkefni sem byggist á niðurstöðum verkefnisins.

Nánar má lesa um verkefnið Heima hér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert