Fylgi Sjálfstæðisflokksins 18,3%

Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, og Kristján Þór Júlíusson, ...
Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, og Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og oddviti flokksins í Norðausturkjördæmi. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Fylgi Sjálfstæðisflokksins hefur aldrei mælst minna í skoðanakönnunum MMR en samkvæmt niðurstöðum nýjustu könnunar fyrirtækisins mælist það nú 18,3%. Tapar flokkurinn tæpu prósentustigi frá síðustu könnun í ágúst þar sem fylgið mældist 19,1%.

Fylgi Sjálfstæðisflokksins mældist um 19% í sumar og hafði þá aldrei mælst minna samkvæmt skoðanakönnunum MMR. Fylgið mælist nú enn minna.

Samfylkingin tapar tveimur prósentustigum frá síðustu skoðanakönnun MMR en mælist engu að síður með næstmest fylgi eða 14,8%. Vinstrihreyfingin - grænt framboð bætir hins vegar við sig fylgi upp á 1,3 prósentustig og mælist nú með 12,8%.

Píratar bæta einnig við sig fylgi og mælast með 12,4% en 11,3% í ágúst. Miðflokkurinn kemur næst með 12% en mældist með 13% í síðasta mánuði. Framsóknarflokkurinn mælist með 11,8% en var með 10,4%.

Viðreisn bætir við sig tæpu prósentustigi og mælist með 10,2% og Flokkur fólksins er með 4% fylgi sem er nær óbreytt frá því í ágúst. Sósíalistaflokkurinn mælist með 2% en var með 2,9% í síðasta mánuði. Ríkisstjórnin mælist með 43,7% stuðning.

Skoðanakönnunin var gerð dagana 9.-16. september og var svarfjöldi 1.045.

mbl.is