Kröfum „úr öllu hófi“ hafnað

Viðar Þorsteinsson, framkvæmdastjóri Eflingar.
Viðar Þorsteinsson, framkvæmdastjóri Eflingar. mbl.is/​Hari

Efling hefur í einu og öllu virt réttindi starfsmanna sinna samkvæmt ráðningarsamningum, kjarasamningum og lögum. Efling hefur hins vegar ekki viljað fallast á kröfur um greiðslur úr sjóðum félagsins, á kostnað félagsmanna, sem eru langt umfram það sem telst heimilt eða eðlilegt.

Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Eflingu þar sem yfirlýsingu tveggja starfsmanna stéttarfélagsins, Kristjönu Valgeirsdóttur fjármálastjóra og Elínar Hönnu Kjartansdóttur bókara, er svarað.

Elín Hanna sagðist meðal annars ekki eiga nógu sterk orð til að lýsa því virðingarleysi sem formaður og framkvæmdastjóri Eflingar hefðu sýnt starfsmönnum og félagsmönnum. Burtreknir starfsmenn og fólk í veikindaleyfi væru fórnarlömb þeirrar atburðarásar sem formaður og fram­kvæmda­stjóri Efl­ing­ar settu af stað þegar þau komust til valda í fé­lag­inu.

Kristjana fullyrti að þeim El­ínu Hönnu hefði verið gef­in „upp kröfu­gerð sem aldrei hef­ur komið fram“.   

Í yfirlýsingu Eflingar kemur fram að stjórn félagsins hafi fjallað um kröfu lögmanns hennar um starfslokagreiðslur sem fólu í sér að Kristjana fengi full laun fram að eftirlaunaaldri eða í þrjú og hálft ár. Kostnaður við slíkar greiðslur hefði varlega áætlað hlaupið á 40-50 milljónum króna.

Stjórn Eflingar taldi þessar kröfur úr öllu hófi og var þeim því hafnað. Stjórn félagsins áréttaði um leið að Efling mundi að sjálfsögðu virða réttindi Kristjönu samkvæmt ráðningarsamningi, kjarasamningi og lögum. Efling hefur nálgast málið í samræmi við þá afstöðu stjórnar og virt í einu og öllu réttindi hennar,“ segir í yfirlýsingunni.

Vegna ummæla Kristjönu, sem skilja má sem svo að hún hafi haft uppi athugasemdir við stjórnendur félagsins um ósamþykkt fjárútlát, vill Efling taka fram að enginn stjórnandi eða starfsmaður á skrifstofu Eflingar hefur svo vitað sé móttekið slíkar athugasemdir. Fjárútlát félagsins og rekstur er í fullu samræmi við reglur félagsins og eru einstakir kostnaðarliðir lagðir fyrir stjórn til samþykktar eftir því sem við á. Enginn fótur er fyrir ásökun Kristjöun um ósamþykktar greiðslur úr sjóðum félagsins og eru þær með öllu úr lausu lofti gripnar. Efling harmar að gripið sé með þessum hætti til ósanninda í því skyni að reyna að þvinga fram óeðlilegar starfslokagreiðslur eins og lýst er hér að ofan,“ segir enn fremur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert