Lík við Heinabergslón reyndist vera brúða

Brúðan er nálit og svartklædd. Hún er nú í varðveislu …
Brúðan er nálit og svartklædd. Hún er nú í varðveislu lögreglunnar á Höfn. Ljósmynd/Aðsend

Ökuleiðsögumaðurinn Gunnar A. Birgisson og ferðamenn á hans vegum lentu í óskemmtilegu atviki nýverið þegar þau komu auga á það sem leit út fyrir að vera mannslík. Sem betur fer var það þó ekki raunin heldur var um brúðu að ræða. 

Af myndum að dæma er brúðan þó óhugnanlega lík manneskju og hefði hún getað valdið talsverðum vandræðum.

Gunnar var á ferð um veginn að Heinabergslóni ásamt tveimur erlendum ferðamönnum, karli og konu, þegar þau tóku eftir því sem virtist vera manneskja á grúfu úti í móa. 

„Konan var með myndavélina sína í fanginu, hún tók mynd og súmaði inn á skjánum og sá að þetta leit út eins og manneskja. Við náttúrlega rukum út úr bílnum og bjuggumst við því að þarna værum við annaðhvort að koma að mjög undarlegri steinhrúgu eða þá að þetta væri einfaldlega líkfundur eða manneskja í neyð. Þetta var eiginlega svo raunverulegt að það var ekki fyrr en við vorum komin mjög nálægt sem við sáum að þetta væri ekki manneskja,“ segir Gunnar í samtali við mbl.is.

Stökk ekki bros

Konan hljóp á undan Gunnari og hinum erlenda ferðamanninum og kallaði til þeirra að þarna væri um gabb að ræða. 

„Við vorum náttúrlega mjög hissa og tókum einhverjar myndir af þessu. Okkur fannst þetta náttúrlega alls ekki fyndið, vorum þarna komin í hálfgerðan skyndihjálpargír. Ég hef komið að banaslysi og maður upplifði þetta svolítið á svipaðan hátt. Svo áttaði maður sig á því að þetta var brúða og maður gat náttúrlega ekki verið neitt annað en ánægður með það en okkur fannst þetta auðvitað alls ekki fyndið,“ segir Gunnar.

Úr fjarlægð er brúðan óhugnanlega lík mannslíki.
Úr fjarlægð er brúðan óhugnanlega lík mannslíki. Ljósmynd/Aðsend

Um kvikmyndagerð að ræða

Í kjölfarið fór hópurinn aftur í bílinn og Gunnar tilkynnti lögreglunni um atvikið.

„Svo tók ég eftir þremur pínulitlum skiltum með einhverjum texta um að þetta væri einhver leikmynd út af einhverri kvikmyndatköku, fólk beðið um að hreyfa vinsamlegast ekki við brúðunni eða ganga hjá henni og eitthvað svona dæmi. Það er náttúrlega asnalegt að vera með skilti töluvert eftir að þú sérð brúðuna,“ segir Gunnar. 

Skiltin tilheyrðu Joint Movie Production en hvorki Gunnar né blaðamaður gátu séð neitt um það fyrirtæki á alnetinu. Engar upptökur voru í gangi þegar Gunnar fann brúðuna.

„Ég býst við að hugmyndin hjá þeim hafi verið að skilja þetta eftir og leyfa fótsporum að jafna sig ef það voru einhver fótspor í mosanum og koma svo aftur að mynda,“ segir Gunnar. 

Hefði getað orðið að allsherjar útkalli

Ef aðrir hefðu komið að brúðunni hefði hún getað valdið talsvert meira tjóni. „Það er ekkert tekið rólega á hugsanlegum líkfundi sem þessum. Þegar ég kom inn á Hornarfjörð þá hitti ég lögreglukonu sem spurði mig hvort ég væri sá sem tilkynnti þetta. Hún þakkaði mér kærlega fyrir að láta vita því ef einhver annar hefði tilkynnt þetta og ekki þorað að koma nálægt hefði verið allsherjar útkall, Landhelgisgæslan, sérsveitin, björgunarsveitir, rannsóknarlögreglan og ég veit ekki hvað og hvað.

Svo sýndi hún mér mynd af brúðunni en lögreglan tók hana. Framan á henni var stórt gat inn í heilann á henni eins og eitthvert uppvakninga dæmi. Það var greinilega verið að taka upp hryllingsmynd,“ segir Gunnar.

Gunnar segir að það að koma að hugsanlegu líki gæti komið fólki úr jafnvægi og hvetur þá sem fyrir þessu standa til þess að sýna ábyrgð.

„Mér finnst þetta mjög óábyrgt og þetta hefði getað komið mjög illa við aðra. Ferðamennirnir sem voru með mér eru ýmsu vanir. Hún er herhjúkrunarkona og hann er fyrrverandi hermaður sem kennir köfun í þýska hernum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert