Flugfreyjur veikjast frekar en flugmenn

Breytingar hafa verið gerðar á flugvélum Icelandair í þeim tilgangi …
Breytingar hafa verið gerðar á flugvélum Icelandair í þeim tilgangi að fyrirbyggja veikindi. Erfitt er að segja til um hverju breytingarnar hafa skilað. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Við höfum gengið mjög langt miðað við það sem flest önnur flugfélög hafa gert í að gera tilraunir til þess að fyrirbyggja veikindi,“ segir Jens Þórðarson, framkvæmdastjóri flugrekstrarsviðs hjá Icelandair. 

Sex mál sem tengj­ast veik­ind­um flug­freyja um borð í vél­um Icelanda­ir eru til rann­sókn­ar hjá rann­sókn­ar­nefnd sam­göngu­slysa þessa stund­ina. Þrjár flug­freyj­ur Icelanda­ir veikt­ust og þurftu súr­efni í flugi Icelanda­ir í síðustu viku. Aðrar fimm flug­freyj­ur íhuga að höfða mál gegn Icelanda­ir vegna veik­inda sinna. 

Jens segir orsakir veikindanna ekki liggja fyrir en unnið sé að því að komast til botns í málinu. Jafnframt segir hann að tilfellin hafi ekki verið óvenjumörg undanfarið en sambærileg veikindi hafa ekki komið upp hjá flugmönnum Icelandair.

„Það hefur reynst mjög erfitt að finna hvað nákvæmlega veldur eða hvers eðlis þessi veikindi eru og það er ekkert breytt í því,“ segir Jens. Ekki hafa fundist tengsl á milli loftgæða í flugvélum Icelandair og veikinda flugfreyjanna. 

Tilfellin ekki fleiri en venjulega

„Á undanförnum árum hefur þetta komið og farið hjá okkur en það eru ekkert sérstaklega mörg tilfelli í gangi núna miðað við það sem venjulegt getur talist.“

Jens Þórðarson, framkvæmdastjóri flugrekstrarsviðs Icelandair.
Jens Þórðarson, framkvæmdastjóri flugrekstrarsviðs Icelandair. mbl.is/Steingrímur Eyjólfsson

Jens segir Icelandair gera „gríðarlega mikið“ til þess að fyrirbyggja veikindi flugfreyja en það sé samt sem áður erfitt þegar orsakir veikindanna liggi ekki fyrir. Aðgerðir Icelandair teljist í tugum eða jafnvel hundruðum.

„Við höfum farið í miklar aðgerðir, breytingar á flugvélum og viðhaldsaðgerðir og alls kyns verkefni og gengið mjög langt til þess að gera allt sem í okkar valdi stendur til þess að fyrirbyggja þetta. Það er erfitt að segja hver árangurinn er af því en við höfum alla vega lagt okkar af mörkum til þess að koma í veg fyrir þetta enda viljum við tryggja góða starfsaðstöðu.“

Öðruvísi kerfi fyrir flugmenn

Sambærileg veikindi hafa ekki komið upp hjá flugmönnum Icelandair. „Það eru svo sum aðeins öðruvísi kerfi í kringum flugmenn heldur en í farþegarými en við höfum ekki orðið vör við sambærileg veikindi flugmanna svo maður verður að segja að það séu meiri líkur á að flugfreyjur veikist en flugmenn, hvers vegna vitum við ekki alveg.“

Jens segir að Icelandair vinni með öðrum flugfélögum að því að komast til botns í málinu. „Þetta er vandamál sem öll flugfélög sjá hjá sér og við höfum mikið verið að vinna með öðrum flugfélögum og verið í samstarfi við þau. Þar deila allir niðurstöður úr sínum greiningum.

Berglind Hafsteinsdóttir, formaður Flugfreyjufélags Íslands, sagði í samtali við mbl.is að félagið myndi ekki tjá sig um málið að svo stöddu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert