Loftgæði á Íslandi meiri nú en árið 1944

Svifryk er mun meira í andrúmsloftinu í dag en árið …
Svifryk er mun meira í andrúmsloftinu í dag en árið 1944. Að sögn Halldórs er mengun frá kolum þó mun skaðlegri en svifriksmengun. mbl.is/RAX

Þrátt fyrir neikvæða þróun í loftslagsmálum á heimsvísu voru loftgæði á Íslandi líklega minni árið 1944 en nú, sérstaklega í þéttbýli. 

Þetta kemur fram í svari Halldórs Pálmars Halldórssonar, líffræðings og forstöðumanns Rannsóknaseturs Háskóla Íslands á Suðurnesjum, á Vísindavefnum. Spurningin sem sett er fram er hvort mengun hafi verið jafn mikil á Íslandi árið 1944 og í dag.

Ástæðan er sú að Íslendingar nýttu sér kol í meira mæli til orkuframleiðslu en gert er í dag. Voru orkugjafarnir að stórum hluta erlendir en í dag eru þeir að stórum hluta innlendir.

Margfalt meiri nýting endurnýjanlegrar orku

Árið 1944 voru 50,4% af orku Íslendinga fengin úr kolum, 15,9% úr olíu, 1,9% úr mó, 27,5% úr jarðhita og 4,2% úr vatnsorku. Þá voru einungis 33,6% af þessum orkugjöfum innlend. 

Árið 2017 voru 1,9% af orku Íslendinga fengin með kolum, 16,9% með olíu, 0% með mó, 60,7% úr jarðhita og 20,2% úr vatnsorku. Voru þá 80,9% af orkugjöfunum innlend.  

Úr 31,7% í 80,9%

Því hefur notkun Íslendinga á endurnýjanlegum orkugjöfum, jarðhita og vatnsorku, aukist  mikið. Var notkun endurnýjanlegra orkugjafa 80,9% árið 2017 en 31,7% árið 1944. 

„Kolaryk getur verið sérstaklega skaðlegt og valdið til dæmis hjarta- og lungnasjúkdómum“, segir í svari Halldórs. Kol voru augljóslega einn helsti orkugjafi Íslendinga og því líklegt að mengun í lofti, jafnt innan- sem utandyra, hafi verið talsverð.

„Loftið var því hugsanlega óheilnæmara en í dag í nærumhverfi íbúa, sérstaklega í þéttbýli.“ Kolaryk getur verið sérstaklega skaðlegt og valdið til dæmis hjarta- og lungnasjúkdómum.

Plastmengun og efnamengun vegur þyngra

Í samtali við mbl.is segir Halldór að þó að loftmengun sé minni þá sé önnur mengun meiri. „Ég held að það sé alveg óhætt að fullyrða það. Öll efnamengun er mikið meiri í dag og ég tala nú ekki um plastið.“

Mjög takmörkuð plastframleiðsla var stunduð á heimsvísu fyrir árið 1944. Plastmengun er því mun stærra vandamál á heimsvísu en áður.  

Afar lítil plastframleiðsla var í heiminum fyrir árið 1944 og því ansi sláandi munur þá og nú á plastmengun á Íslandi eins og annars staðar í heiminum.

Graf/Vísindavefurinn

Þó svo að Íslendingar hafi greinilega gert eitthvað rétt í umhverfismálum með því að færa sig yfir í endurnýjanlega orkugjafa þá vegur önnur mengun þungt. 

„Öll efnaframleiðsla fer á fullt í kjölfar ársins 1944, um 1950 eða 1960. Þá koma þessi þrávirku efni fram, plágueyðar, PCP, skordýraeitur og allt þetta sem við sjáum enn í dag. Þó að það sé búið að banna mörg af þessum efnum þá eru þau enn í lífríkinu,“ segir Halldór. 

mbl.is