Seldist upp í keppni næsta árs á hálfum sólarhring

María Ögn Guðmundsdóttir endaði í öðru sæti í ár á …
María Ögn Guðmundsdóttir endaði í öðru sæti í ár á eftir Alison Tetrick. Hún fer hér yfir eina af óbrúuðu ám keppninnar. Ljósmynd/Snorri Þór Tryggvason

Malarhjólreiðar virðast vera að festa sig í sessi hér á landi, allavega hvað við kemur áhuga útlendinga sem ætla að sækja landið heim á næsta ári til að taka þátt í hjólakeppninni The Rift. Keppnin er sú fyrsta sinnar tegundar hér á landi og var haldin í fyrsta skipti á þessu ári og tóku á bilinu 250 til 300 manns þátt. Skipuleggjendur höfðu hugsað sér að tvöfalda keppnina og var miðað við 500 miða á næsta ári. Almenn sala miða hófst í dag og seldist upp samdægurs.

Benedikt Skúlason, forstjóri hjólaframleiðandans Lauf cycling, sem stendur á bak við keppnina, segir að keppendur frá 45 löndum séu skráðir. Seldir voru 500 miðar, en auk þess eru einhverjir boðsmiðar sem fara til atvinnumanna og þeirra sem hafa unnið sambærileg mót erlendis. Sem fyrr er mestur áhugi frá Bandaríkjunum, en það er það land heimsins þar sem malarhjólreiðar hafa náð hvað mestum vinsældum og þá selur Lauf einnig mest af malarhjólum sínum þar.

Um helmingur allra sem skráðir eru til leiks eru frá Bandaríkjunum, en 25% eru frá Íslandi. Restin skiptist niður á hin 43 löndin.

Benedikt Skúlason, framkvæmdastjóri Lauf.
Benedikt Skúlason, framkvæmdastjóri Lauf. mbl.is/​Hari

Keppnin vakti talsverða athygli á árinu, bæði í hjólasamfélaginu hér á landi, en ekki síður erlendis þar sem fjölmargir hjólafjölmiðlar fjölluðum um keppnina. Þar ber líklega helst að nefna GCN, en einn kynnir miðilsins mætti til leiks og gaf keppninni og ekki síst landslaginu sín bestu meðmæli. Hafa tæplega 190 þúsund manns horft á umfjöllun miðilsins um keppnina.

Í keppninni, sem fram fer í lok júlí, er hjólað frá Hvolsvelli upp Fjallabak syðra og svo Krakatindaleið að Landmannahelli. Þar er snúið við og farin Landmannaleið niður á Landveg og þar niður með Heklu og aftur á Hvolsvöll. Samtals er um að ræða 200 kílómetra leið, en einnig verða í boði 100 kílómetra og 45 kílómetra vegalengdir á næsta ári. Meðal annars þarf að fara yfir nokkrar óbrúaðar ár og þá þurfa keppendur að vera viðbúnir hvernig veðri sem er.

Spurður út í viðtökurnar segir Benedikt að greinilegt sé að áhuginn sé gríðarlegur. Segir hann sérstaklega gaman að sjá í þessum tölum hvernig malarhjólreiðarnar séu byrjaðar að breiðast út frá Bandaríkjunum þar sem þessi tegund hjólreiða byrjaði. „Við sjáum t.d. sterka skráningu frá Bretlandi í ár,“ segir hann og bætir við: „Við bjuggumst við miklum áhuga. Vorum eiginlega viss um að það myndi seljast upp, en héldum að það tæki kannski nokkra mánuði, að minnsta kosti ekki bara hálfan sólarhring.“

Allra veðra von er á hálendi Íslands eins og keppendur …
Allra veðra von er á hálendi Íslands eins og keppendur fengu að kynnast í sumar. Ljósmynd/Snorri Þór Tryggvason
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert