Skautar fram hjá 400 daga einangrun

Guðmundar- og Geirfinnsmálið í Hæstarétti.
Guðmundar- og Geirfinnsmálið í Hæstarétti. mbl.is/​Hari

„Ég átta mig ekki alveg hvað hann á við með þessu,“ segir Ragnar Aðalsteinsson, lögmaður Guðjóns Skarphéðinssonar, eins þeirra sem sýknaðir voru af ákæru í Guðmundar- og Geirfinnsmálinu, vegna ummæla ríkislögmanns um að forsendur bótakröfu Guðjóns hafi ekki verið réttar. 

Andri Árna­son, sett­ur rík­is­lögmaður í mál­um er varða bóta­kröf­ur vegna Guðmund­ar- og Geirfinns­máls­ins, sagði í samtali við mbl.is í gær að Guðjón hefði verið vistaður megnið af tímanum, fjögur ár af fimm, á Kvíabryggju, en ekki í ein­angr­un­ar­fang­elsi, sem stefn­andi miði fjár­hæð kröfu­gerðar sinn­ar við.

Allt meira en 15 daga einangrun hættuleg heilsu manna

„Það sem hann skautar fram hjá, sem er aðalatriðið, er að Guðjón var vistaður í rúmlega 400 daga í einangrun sem hvarvetna í heiminum telst til pyntinga. Sameinuðu þjóðirnar telja allt sem er meira en 15 daga einangrun sé hættulegt heilsu manna, andlegri og líkamlegri,“ segir Ragnar. 

Hann bendir á að Hæstiréttur hafi viðurkennt í dómum sínum frá árinu 1983 í málum Magnúsar Leópoldssonar og fleiri að það væri „stórkostleg raun“ að vera 105 daga í einangrun. „Það virðist vera að ríkislögmaður sé að hafna öllu sem þekkt er og líka dómum Hæstaréttar í fyrri málum.“

Ragnar Aðalsteinsson, lögmaður Guðjóns Skarphéðinssonar.
Ragnar Aðalsteinsson, lögmaður Guðjóns Skarphéðinssonar.

Sátta­nefnd for­sæt­is­ráðuneyt­is­ins í Guðmund­ar- og Geirfinns­mál­inu hætti störf­um 1. júlí síðastliðinn í kjöl­far þess að bótakrafa var lögð fram fyr­ir hönd Guðjóns. Krefst hann 1,3 millj­arða króna fyr­ir ólög­lega frels­is­svipt­ingu. Ragnar sagði við mbl.is fyrir helgi að sáttanefndin hefði boðið Guðjóni 100 milljónir króna í bætur. 

Ragnar segir að það hafi komið tölur frá fyrstu sáttanefndinni sem hafi miðað við hlutdeild í 400 milljónum. Ramminn hafi verið hækkaður í 600 milljónir þegar Andri var settur ríkislögmaður í málinu en við það hafi hugmynd ríkisins hækkað gagnvart Guðjóni sem því nam.

„Þær tölur sem voru nefndar fóru yfir 100 milljónir,“ segir Ragnar.

Auðvelt að gefast upp gegn yfirburðum ríkisins

Andri sagðist hafa talið að sátt væri í augsýn í júní en Ragnar segir málið ekki svo einfalt:

„Það er gríðarlega erfitt fyrir einstaklinga að vera í málaferlum við ríkið. Það hefur yfirburðastöðu; peninga, mannaafla og hvaðeina. Það er mjög auðvelt að gefast upp þegar svona stendur á og það kom sá tími að umbjóðandi minn hugleiddi alvarlega að fallast á það sem ríkið segði, hvað sem það væri, til að losna undan þessum átökum við ríkið. Niðurstaðan varð sú að gera það ekki heldur að leita réttar síns, þó að það kostaði dómsmál.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert