„Þetta gengur ekki svona“

Páll Magnússon, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og formaður allsherjar- og menntamálanefndar Alþingis, …
Páll Magnússon, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og formaður allsherjar- og menntamálanefndar Alþingis, segir að nálgast þurfi mál lögreglunnar af yfirvegun. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Ég held að það sé óvarlegt að hafa uppi sterkar skoðanir á þessu máli eins og sakir standa en hins vegar er alveg ljóst að ástandið innan lögreglunnar er grafalvarlegt og það verður vitanlega að bregðast við því með einhverjum hætti.“

Þetta segir Páll Magnússon, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og formaður allsherjar- og menntamálanefndar Alþingis, í samtali við mbl.is vegna gagnrýni sem komið hefur fram á störf Haraldar Johannessen ríkislögreglustjóra, en átta af níu lögreglustjórum hafa lýst yfir vantrausti á hann sem og formannafundur Landssambands lögreglumanna.

Páll vísar í því sambandi til þess að ríkisendurskoðun hafi ákveðið að hefja stjórnsýsluúttekt á embætti ríkislögreglustjóra. „Þetta lýsir ástandi sem er algerlega óviðunandi og það verður að grípa til einhverra úrræða varðandi það. Nákvæmlega hvað það er treysti ég mér ekki til þess að segja nákvæmlega á þessu augnabliki.“

Þannig kunni að koma til þess að allsherjar- og menntamálanefnd láti málið til sín taka með einhverjum hætti á næstunni en hann telji hins vegar að eins og sakir standa sé rétt að tjá sig varlega um það.

„Ég tel að þetta mál sé þess eðlis að ekki sé hægt að hlaupa til með alltof sterkar ályktanir á þessu stigi. Eðli málsins samkvæmt eru málefni lögreglunnar með þeim hætti að það verður að nálgast þau af íhygli og yfirvegun en það er hins vegar morgunljóst að þetta gengur ekki svona. Það er ekki hægt að hafa lögregluna logandi stafnanna á milli í einhverju vantrausti og deilum innbyrðis. Það bara gengur ekki. Það liggur í hlutarins eðli að þetta ástand er óviðunandi.“

mbl.is