„Þetta má ekki vera svona“

Þuríður Harpa Sigurðardóttir, formaður ÖBÍ.
Þuríður Harpa Sigurðardóttir, formaður ÖBÍ. Ljósmynd/Aðsend

„Þetta er mjög öfugsnúið,“ segir Þuríður Harpa Sigurðardóttir, formaður Öyryrkjabandalags Íslands. Drátt­ar­vext­ir af van­greidd­um bót­um, sem Reykja­vík­ur­borg þurfti að greiða um 500 líf­eyr­isþegum og ör­yrkj­um eft­ir dóm Hæsta­rétt­ar, skerða kjör þeirra um­tals­vert.

Fjallað var um málið fréttum RÚV um helgina.

Þar kom fram að dráttarvextir af vangreiddum bótum eftir dóm Hæstaréttar árið 2016 séu umtalsverðir, enda sé greiðslan afturvirk um fjögurra ára tímabil. Vextirnir teljast fjármagnstekjur og hefur Tryggingastofnun þegar sent bakreikninga til fólks upp á nokkur hundruð þúsunda. 

Þuríður segir að allir sem hafi fengið þessa dráttarvexti geti óskað niðurfellingar á kröfum frá Tryggingastofnun. Hún hvetur þá sem hafa fengið þessa bakreikninga til að gera það en síðast þegar hún vissi voru um 100 búnir að óska eftir niðurfellingu á kröfum. 

Súrt og furðulegt mál

Þuríður segir málið allt saman súrt og bendir á að Öryrkjabandalagið hafi haft samband við Ásmund Einar Daðason félagsmálaráðherra í janúar og bent honum á að svona gæti farið. ÖBÍ óskaði eftir því að fundin yrði leið til að tryggja að þegar ríki eða sveitarfélög greiði örorkulífeyrisþegum skaðabætur vegna vangoldinna greiðslna lendi þær í vasa viðkomandi einstaklings en verði ekki vítahringur ýmissa skerðinga sem setji viðkomandi einstakling jafnvel í mjög vonda stöðu.

„Það er furðulegt ef skaðabætur sem Reykjavíkurborg greiðir örorkulífeyrisþega lendir í vasa ríkisins,“ segir Þuríður. 

„Við erum með dæmi um mann sem fékk 370 þúsund krónur greidda í dráttarvexti. Þá lítur TR á það sem fjármagnstekjur og rukkar einstaklinginn um 360 þúsund. Þarna hirðir ríkið skaðabætur sem Reykjavíkurborg er að borga fólki. Þetta má ekki vera svona,“ segir Þuríður.

Fram kom í svari frá félagsmálaráðuneytinu, eftir ítrekaðar fyrirspurnir ÖBÍ, að þar gætu menn ekkert gert án þess að breyta lögum. 

Þuríður segir að ríkið hljóti að breyta þessu svo að öryrkjum verði ekki refsað fyrir að þeim voru dæmdar skaðabætur, dráttarvextir, sem eru skaðabætur fyrir að greitt var of seint, sem renni að mestu í ríkissjóð á endanum.

„Þeir hljóta að finna leið til að breyta þessu.“ 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert