Trump sagður vilja semja við Ísland

Öryggisráðgjafar forsetans munu hafa ráðlagt Trump að fjárfesta á Norðurslóðum.
Öryggisráðgjafar forsetans munu hafa ráðlagt Trump að fjárfesta á Norðurslóðum. AFP

Stjórn Donalds Trump Bandaríkjaforseta er sögð hafa áhuga á gerð fríverslunarsamnings við Ísland. Samkvæmt umfjöllun Axios hefði samningurinn lítið viðskiptafræðilegt gildi fyrir Bandaríkin og skiptir landfræðileg staðsetning Íslands höfuðmáli.

Viðskiptasamningur við Ísland þykir fýsilegur kostur fyrir Bandaríkin í ljósi viðskiptastríðs þeirra við Kína og vaxandi spennu við önnur Evrópulönd.

Þjóðaröryggismál

Öryggisráðgjafar forsetans munu hafa ráðlagt Trump að fjárfesta á norðurslóðum, og eftir skýrt svar frá Danmörku um að Grænland sé ekki til sölu þykir fríverslunarsamningur við Ísland skynsamlegt skref fyrir Bandaríkin af hernaðarlegum ástæðum.

„Þetta er þjóðaröryggismál,  að gera svona samninga og fá þá til að vinna með okkur en ekki Kínverjum eða Rússum,“ hefur Axios eftir ónefndum embættismanni, en Kínverjar hafa reynt að fá Íslendinga til liðs við fjárfestingaráætlunina Belti og braut, auk þess sem umsvif Rússa á norðurslóðum fara vaxandi.

Málið er sagt hafa verið rætt á hádegisverðarfundi öldungadeildarþingmanna Repúblikanaflokksins og mælst vel fyrir.-

mbl.is