Lögreglan verði ein samhent heild

Áslaug Arna ritaði lögreglustjórum landsins bréf sl. föstudag.
Áslaug Arna ritaði lögreglustjórum landsins bréf sl. föstudag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Dómsmálaráðherra telur rétt að leggja áherslu á það stefnumið að lögreglan í landinu verði í vaxandi mæli rekin sem ein samhent heild, óháð því hvernig yfirstjórn hennar verður háttað. 

Þetta kemur fram í bréfi sem Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra sendi lögreglustjórum í landinu sl. föstudag og mbl.is hefur undir höndum.

Þar kemur fram að borið hafi á vaxandi óánægju innan lögreglunnar með einstaka þætti í yfirstjórn og að togstreita manna á milli hafi verið áberandi, auk þess sem sérstaklega hafi verið bent á að staða embættis ríkislögreglustjóra væri ekki nógu skýr og að margþætt hlutverk hans kallaði beilínis á deilur og togstreitu, m.a. um reglur, fjármuni og mannafla.

Fyrirætlunum um að færa einstök löggæsluverkefni til umdæmanna ekki verið fylgt eftir

Í ljósi þeirrar stöðu sem uppi er í málefnum lögreglu hefur ráðherra því, að því er segir í bréfinu, ákveðið að fela ráðuneytinu að fara yfir þá vinnu sem unnin hefur verið á sviðinu í kjölfar skýrslu starfshóps sem skoðaði stofnanauppbygginu, umdæma- og verkefnaskiptingu, sem gefin var út árið 2009, þar sem lagt var til að löggæsla yrði skilin frá embættum sýslumanna og umdæmum fækkað í sex.

Í framhaldi stækkunar embættanna var lagt til að unnið yrði skipulega að því að færa löggæsluverkefni frá embætti ríkislögreglustjóra til lögregluembættanna eftir því sem hagkvæmt þætti og að um leið yrði hugað að þvi að sameina vinnslu einstakra löggæsluverkefna á landsvísu á einstökum embættum.

Samkvæmt bréfi Áslaugar Örnu til lögreglustjóranna segir hins vegar að þeim fyrirætlunum að færa einstök löggæsluverkefni á landsvísu til umdæmanna frá ríkislögreglustjóra í framhaldi af stækkun þeirra hafi ekki verið fylgt eftir. Nú væru liðin fimm ár frá endurskipulagningu með lögum þáverandi dómsmálaráðherra nr. 51/2014 og stækkun umdæmanna virðist hafa dregið enn frekar fram þann vanda sem við sé að etja í skipulagi lögreglunnar í stað þess að leysa hann.

Vinnunni verði flýtt eftir mætti

„Ráðherra leggur áherslu á að þessari vinnu verði flýtt eftir mætti,“ segir í bréfinu. „Ráðherra leggur jafnframt mikla áherslu á að við vinnuna verði kortlagt í hvaða skrefum rétt kann að vera að gera breytingar á skipulagi lögreglu og hvaða skref, ef einhver, væri unnt að stíga strax til að bregðast við þeim vanda sem nú er uppi.“

Þá er þess óskað að embætti lögreglustjóranna verði ráðuneytinu innan handar við vinnuna sem framundan er.

mbl.is