Hegðun fyrrverandi skrifstofustjóra „með hreinum ólíkindum“

Deilur milli fyrrverandi skrifstofustjóra Eflingar og núverandi stjórnar stéttarfélagsins færast ...
Deilur milli fyrrverandi skrifstofustjóra Eflingar og núverandi stjórnar stéttarfélagsins færast í aukana. Ljósmynd/Efling

„Ég lýsi furðu á því að maður sem hefur ekki starfað á skrifstofu Eflingar síðan í maí 2018 sé að tala líkt og hann sé heimildamaður um innri starfsmannamál. Ég bara spyr hverjar eru hans heimildir og hvað kemur honum þetta við?“

Þetta segir Viðar Þorsteinsson, framkvæmdarstjóri Eflingar, um yfirlýsingar Þráins Hallgrímssonar fyrrverandi skrifstofustjóra Eflingar sem ritaði grein sem birtist í Morgunblaðinu í dag. Þar segir Þráinn meðal annars að nýir forystumenn Eflingar hafi „nú rekið eða afþakkað störf a.m.k. sex starfsmanna og á annan tug starfsmanna hafa verið skráðir langtímaveikir.“

„Ég átta mig ekki á hvað er verið að tala um með að á annan tug starfsmanna séu langtímaveikir. Hef ekki hugmynd um hvað þarna er verið að vísa í,“ útskýrir Viðar spurður um skrif Þráins.

Þráinn hafi áreitt starfsfólk á vinnutíma

Viðar segir jafnframt að Þráinn hafi haft uppi það sem hann kallar „áreitni í garð starfsmanna hjá Eflingu“ og að síðast í apríl á þessu ári hafi hann sent starfsmönnum stéttarfélagsins tölvupóstsskeyti þar sem hann bar formann Eflingar, Sólveigu Önnu Jónsdóttur, mjög þungum sökum og sakaði hana meðal annars um að beita ofbeldi.

Viðar Þorsteinsson og Sólveig Anna Jónsdóttir. Viðar segir Þráinn hafa ...
Viðar Þorsteinsson og Sólveig Anna Jónsdóttir. Viðar segir Þráinn hafa borið Sólveigu þungum sökum í tölvupóstssendingum til starfsmanna Eflingar. mbl.is/​Hari

„Það er með hreinum ólíkindum að fyrrverandi stjórnandi á vinnustað sé að áreita starfsfólk á vinnutíma með sendingum á vinnunetföng þeirra til að bera út rógburð og ósannindi um nýjan stjórnanda,“ segir Viðar.

Hann tekur fram að ágreiningsmál Þráins og Eflingar snúist ekki um „nein réttindabrot eða réttindi yfirleitt“ heldur að Þráinn hafi í september á síðasta ári sett fram kröfur um auknar starfslokagreiðslur eftir að hafa undirritað starfslokasamning.

„Þessi ósk hans var tekin til málefnalegrar skoðunar hér með ráðgjöf lögmanna og var hafnað í ljósi þess að það væri ekki fótur fyrir henni frá lagalegu sjónarmiði,“ útskýrir Viðar.

Ekki réttlætanlegt að kvitta upp á greiðslur eftir hentisemi

Hann telur ljóst að aðfarir Þráins sem hafi verið yfirstandandi í um það bil ár séu hugsaðar til þess að setja óeðlilegan þrýsting á forystu Eflingar til að greiða honum peningagreiðslur „sem eru algjörlega án nokkurrar stoðar í lögum, ráðningarsamningi hans eða kjarasamningum yfirleitt.“

„Okkar sjónarmið eru að það þurfi að vera málefnaleg rök fyrir hendi til að það sé réttlætanlegt að hátt settir stjórnendur séu að fá einhverjar viðbótargreiðslur en ekki að stjórnendur séu sín á milli að kvitta upp á einhverjar viðbótarsporslur eftir hentisemi,“ segir Viðar að lokum.

mbl.is